Reynir Örn Kárason Litli frændi er farinn frá okkur, allt í einu svo fyrirvaralaust. Allt í einu er þessi litli drengur rifinn frá okkur og maður spyr "af hverju?" Af hverju hann sem var hvers manns hugljúfi og öllum þótti svo vænt um? Það er hægt að segja svo margt um þennan indæla dreng, sem stoppaði svo alltof stutt hjá okkur. Fjögur ár eru ekki langur tími, en á þessari stuttu ævi sinni gaf Reynir okkur svo ótrúlega mikið. Í fyrsta skipti er við sáum Reyni Örn var hann nýfæddur á Landspítalanum. Þar varði hann fyrstu vikunum í lífi sínu vegna þess hve mjög honum lá á út í lífið. Hans meðfæddi lífskraftur megnaði þó fljótlega að gera hann að þeim hrausta og heilbrigða dreng sem hann var. Tími okkar með Reyni Erni var ekki langur en ferðir hans yfir götuna til okkar voru margar. Oft kom hann til okkar á morgnana ef honum fannst við sofa of lengi og sagði "mamma segir að það sé komið kaffi". Stundum labbaði hann beint inn í eldhús og fékk sér eitthvað í svanginn eða bara sagði "hæ, ég er kominn í heimsókn". En nú er allt svo hljótt.

Oftar en ekki kom Reynir Örn með okkur í langa labbitúra til að viðra hundana. Það var alveg ótrúlegt hvernig hann hamaðist í hundunum, hékk í eyrunum á þeim og jafnvel tróð höndunum upp í þá. En hundunum fannst það allt í lagi af því að þetta var bara Reynir litli frændi. Síðasta sumar lögðum við land undir fót með fjölskyldunni allri. Við fórum saman í sumarfrí vestur á firði. Þá var Reynir Örn alltaf í essinu sínu vegna þess að þá fékk hann alltaf að fara í sund á hverjum degi. Þá fékk hann sér kút og kork og stökk út í vatnið, buslaði af öllum mætti og ljómaði af gleði. Svona var hann Reynir Örn og svona skulum við muna eftir honum, alltaf hressum og skemmtilegum og svo fullum af lífskrafti og gleði. Elsku Helga Björg, Kári, Óttar, Steinunn, mamma, pabbi, amma, Ásta og aðrir aðstandendur. Guð gefi ykkur styrk til að takast á við þessa miklu sorg. Stórt ský hefur dregið fyrir sólu í lífi okkar allra en einn daginn mun rofa til og við munum sjá fram á bjartari tíma. Þessi orð mega sín lítils gegn þessari miklu sorg sem að okkur steðjar. En þau eru skrifuð í einlægri trú á að við komumst yfir sorgina öll saman.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni.

Sitji Guðs englar saman í hring,

sænginni yfir minni.

Kveðja,

Þórey og Skafti.