Hermann Ragnar Stefánsson Með örfáum orðum kveð ég vin minn Hermann Ragnar Stefánsson.

Ef lýsa ætti Hermanni með einu orði þá kemur orðið stór fyrst í hugann, því hann var stór maður í huga og orði.

Með stolti skrifa ég vinur, því vinur var hann mér fyrst og fremst. Ég var svo lánsamur að nema dans hjá honum. Skipulagður, vinnusamur, hvetjandi, örlátur, þolinmóður og gefandi var það sem hann gaf mér í veganesti í danskennaranáminu. Dansinn var Hermanni ekki bara hugleikinn heldur líka hugsjón sem ég tók þátt í með honum. Sérstaklega voru börnin honum hugleikin og var það hans aðalsmerki.

Ekki er hægt að skrifa bara um Hermann því Unnur var alltaf við hlið hans sem stoð og stytta. Þau hjónin ásamt Henny ráku dansskóla sem þau mega vera stolt af. Hermanni og fjölskyldu á ég margt að þakka þá sérstaklega hlýhug og vináttu, því heimili þeirra er mér og fjölskyldu minni alltaf opið.

Elsku Unnur, Henny, Arngrímur, Björn og fjölskyldur, megi guð blessa ykkur og styrkja í sorg.

Að lokum, elsku Hermann, guð blessi þig á nýju tilverustigi.

Ferðalag!

Á þönum um lífið

og tilveran bíður.

Við þeysum svo hratt

og tíminn líður.

Hverfull er himinsins,

gylltu logar.

Herra með ljósið,

þú í mig togar.

Ó, hærra til þín,

er hvergi smeykur.

Tekur á móti mér

hörpu leikur.

Glæddi mitt hjarta

þinn guðlegi máttur.

Sit ég við hlið þér

sæll og sáttur.

(Ó.G.) Óli Geir.