Guðjón Magnússon Þó að kali heitur hver

hylji dali jökull ber

steinar tali og allt hvað er

aldrei skal ég gleyma þér.

(Vatnsenda-Rósa) Elsku pabbi.

Þakka þér fyrir allar yndislegu stundirnar sem við áttum saman. Ég mun aldrei gleyma þegar við sátum og horfðum á íþróttir saman öskrandi þannig að öðrum stóð ekki á sama, stuðninginn frá þér þegar Þrótti gekk illa eða gleði okkar þegar vel gekk, né hlátri þínum þegar ég sagði þér "köttara"-sögur. Ég mun heldur aldrei gleyma öllum jóla- og afmælisboðum þar sem þú vildir að öll fjölskyldan væri saman, bíltúrunum, ferðalögunum né öllum þeim tíma sem við vörðum saman. Elsku pabbi, það var sama hvernig ég hegðaði mér, alltaf varstu mér við hlið og studdir mig í öllu sem ég gerði.

Aldrei fórstu mörgum orðum um hlutina né hallmæltir nokkrum en það sem þú sagðir kom frá hjarta þínu.

Nú ertu farinn frá mér, en minninguna um þig mun ég alltaf geyma í hjarta mínu og mun hún lýsa upp líf mitt.

Elsku mamma mín, missir þinn er mikill en mundu að við börnin þín munum ætíð styðja þig og deila með þér gleði og sorg.

Þinn sonur,

Guðjón.