Guðjón Magnússon Elsku pabbi, nú er komið að kveðjustund.

Það er erfitt að koma orðum að því sem við viljum skrifa um þig. Minningar okkar eru margar en þó mismunandi.

Við systkinin eigum mismunandi minningar um þig, en þó eigum við öll sameiginlegar minningar um ástríkan föður sem við gátum alltaf leitað til. Við eigum minningar um hamingjusama foreldra sem gátu annast mannmargt heimili.

Barnabörnin komu eitt af öðru og fengu þau öll sama ástríkið frá þér og við fengum í uppvexti og gott veganesti út í lífið.

Svo eigum við skemmtilegar myndir í huga okkar um öll ferðalögin, bíltúrana og allar þær stundir sem við áttum með þér.

Elsku pabbi, það mun enginn geta fyllt það skarð sem þú hefur nú skilið eftir í hjörtum okkar en við munum ylja okkur við allar þessar minningar sem við eigum um þig og þökkum fyrir þann tíma sem við höfðum þig hjá okkur.

Elsku mamma, megi góður guð styrkja þig í þinni miklu sorg.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

(V. Briem.) Kær kveðja, þín börn,

Guðrún, Ása, Vignir

og Guðjón.