Guðjón Magnússon Elsku afi, þegar ég kveð þig í hinsta sinn með söknuði langar mig að skrifa minningar sem mér eru efstar í huga.

Fyrstu minningar mínar um þig eru þær er þú og amma bjugguð inni í Gnoðarvogi þar sem ég og Rúnar bróðir minn ólumst að mestu leyti upp ásamt bræðrunum Vigni, Guðjóni og frænkum mínum, Siggu og Bryndísi.

Öll munum við eftir því er við biðum spennt eftir þér koma heim í hádegismat en amma hafði alltaf heitan mat handa þér og okkur í hádeginu.

Þú tókst alltaf vel til matar og kenndir okkur að meta það sem á borðið var lagt enda varst þú alltaf fyrirmynd okkar allra.

Afi, þú varst sá persónuleiki sem vildir allt fyrir okkur gera, þar sem ég og bróðir minn vorum aldir upp einir hjá móður okkar komst þú okkur svo til líka í föður stað. Man ég þegar þú sóttir okkur í bíltúr og fórst með okkur niður á höfn, Rauðhóla og leyfðir okkur að stýra bílnum í fanginu á þér.

Ógleymanlegar eru ferðirnar með þér að Hafravatni þar sem þú kenndir okkur að veiða.

Dálæti þitt að sitja þar á fögru sumarkvöldi verður mér ætíð ofarlega í huga. Alltaf studdir þú okkur í íþróttum og varst okkur mikil hvatning.

Ein mesta ánægja þín var er öll fjölskyldan var saman komin t.d. á jólum og afmælum.

Á jólum varst þú alltaf þjónandi fjölskyldunni og hver man ekki eftir þér í eldhúsinu með svuntuna framan á þér.

Mínar kannski skemmtilegustu minningar um þig eru er við lágum oftar en ekki um helgar fyrir framan sjónvarpið horfandi á fótbolta öskrandi á okkar lið.

Afi, þú varst þessi maður sem öllum þótti vænt um og allir báru mikla virðingu fyrir, þú varst hlédrægur og einstaklega blíður.

Þó svo að þú hafir verið búinn að ganga í gegnum marga erfiðleika, svo sem hjartaaðgerð fyrir 13 árum, uppskurð á mjöðm og nýlega aðgerð á hné lést þú okkur aldrei finna fyrir veikindum þínum sem við héldum að væru ekki svona alvarleg. Alla tíð voruð þið amma afar hamingjusöm og höfum við öll barnabörnin fengið góða fyrirmynd af ástríku hjónabandi.

Þegar ég kveð þig, elsku afi minn, veit ég að þér líður nú vel og veit að við munum hittast síðar.

Ég bið guð að styðja þig, elsku amma mín, í þessari miklu sorg er þú hefur orðið fyrir en við munum ávallt vera þér við hlið.

Ragnar Steinn.