Guðjón Magnússon Elsku besti afi.

Nú ertu laus við allar þjáningar sem hafa plagað þig síðustu ár, en ég vissi ekki hversu alvarlegA veikur þú varst. Þér tókst að blekkja mig og sagðir alltaf að þú værir bara með verki í fætinum, en þú vissir betur en sagðir aldrei neitt.

Nóttina eftir að þú varst farinn frá okkur reyndi ég að festa svefn, en þá komu minningarnar um þig upp í hugann þannig að ég lá lengi andvaka. Minnisstæðast var þegar þú fórst með mig í bíltúr út í Nauthólsvík og allt í einu stoppaðir þú bílinn utan vegar og sagðir að ég ætti nú að reyna að keyra. Þetta var í fyrsta skipti sem ég prófaði að keyra bíl, og það fór nú bara svo að Tóti keypti af þér bláu Toyotuna þegar hann náði prófi. Ég var meira og minna á heimili ykkar ömmu í Gnoðarvoginum meðan ég var í Vogaskóla og þótti mér mjög leiðinlegt þegar þið fluttuð í Bólstaðarhlíðina því þá voruð þið komin út úr hverfinu okkar eins og við kölluðum það. Samt var alltaf gott að vera hjá ykkur sama hvar þið voruð. Mér þykir mjög leitt að þú munir ekki sjá barnið sem ég ber nú undir belti en ég veit að þú munt vaka yfir því. Eydís Ása, sem var þitt annað langafabarn, talar til þín á hverjum degi, en hún fær ekkert svar, en hún veit að þú heyrir til hennar. Elsku afi minn, ég minnist þín alla tíð sem góðs, skilningsríks og gefandi manns og veit að þú munt vernda okkur sem unnum þér svo heitt.

Guð leiði þig, en líkni mér

sem lengur má ei fylgja þér.

En eg vil fá þér englavörð,

míns innsta hjarta bænagjörð:

Guð leiði þig.

(M. Joch.) Sigríður Helga.