Guðjón Magnússon Kveðja til afa

Það var laugardaginn 7. júní að Sigga systir hringdi í mig og sagði mér að þú hefðir dottið í vinnunni og það væri hugsanlega vegna hjartaáfalls. Þú hafðir verið lagður inn á spítala til frekari rannsókna. Hún bað mig um að koma til mömmu því þar ætlaði öll fjölskyldan að hittast. Ekki grunaði mig þá að ég fengi ekki að njóta nærveru þinnar mikið lengur. Við skiptum okkur í hópa til þess að fá að heimsækja þig. Þú barst þig eins vel og þú gast miðað við allar kvalirnar sem þú þurftir að þola. Ekki vantaði spurningarnar um hvort ekki væri eitthvað að frétta og hvort ekki væri allt í lagi með litla drenginn okkar. Þú hafðir meiri áhyggjur af líðan annarra en þinni eigin.

Þú varst mjög ósérhlífinn maður og kvartaðir aldrei undan veikindum þínum sem höfðu hrjáð þig í mörg ár. Það er okkur minnisstætt þegar við fengum að græða upp sár á þér sem var farið að grafa í. Þér fannst þetta bara vera óþarfa stjan í kringum þig en varst samt mjög þakklátur.

Þú hafðiR alltaf jafngaman af því þegar fjölskyldan kom saman og kom hún saman 1. júní þegar Bjartur Þór sonur okkar var skírður. Ekki gat maður séð þennan dag að þú myndir falla frá viku síðar því þú varst svo afslappaður og rólegur og naust nærveru allra.

Afi, þú náðir aldrei að heimsækja okkur til Akureyrar og sjá íbúðina okkar. Við vitum að þú sérð íbúðina nú frá öðru sjónarhorni. Við vonumst til að þér líki hún því þú hafðir mikinn metnað í því að íbúðir fjölskyldunnar væru í góðu ásigkomulagi. Ef þær voru það ekki varst þú alltaf fyrstur manna til að koma og hjálpa til því þú varst svo laghentur maður.

Elsku afi okkar, nú vonum við að þér líði vel og sért laus við allar kvalirnar, við vitum að þú vakir yfir okkur og heldur vernarhendi yfir okkur í fjölskyldunni. Við þökkum þér innilega þær samverustundir sem við áttum með þér.

Elsku amma, þú hefur misst mikið en átt margar góðar minningar. Megi Guð styrkja þig á þessari sorgarstundu.

Bryndís, Helgi Þór og Bjartur Þór.