Guðjón Magnússon Elsku afi minn.

Ég rita þessi orð með miklum söknuði.

Ég sá þig í hinsta sinn í skírninni síðastliðinn sunnudag. Þú varst þreyttur að sjá. Þú sagðist bíða eftir plássi á sjúkrahúsi því það þyrfti að laga æðarnar. Biðin varð endaslepp. Þú kvaddir þennan heim svo skyndilega.

Þau voru góð árin sem við bræður áttum hjá þér og ömmu í Gnoðarvogi. Þið veittuð okkur öryggi og hlýju. Það hlýtur oft að hafa verið erfitt að hafa okkur öll barnabörnin alla virka daga frá morgni til kvölds og jafnvel um helgar líka. Ekki veit ég til þess að þið hafið nokkurn tíma kvartað undan okkur og þó voru lætin oft með eindæmum.

Þú hvattir okkur til að stunda íþróttir og útiveru enda varst þú mikill áhugamaður um flestar íþróttir. Þú kenndir okkur að veiða. Ófáar ferðirnar fórum við eftir vinnu upp að Hafravatni og renndum fyrir silung. Og á sunnudögum, bíltúr með þér um höfnina, Nauthólsvíkina og flugvöllinn þar sem við fylgdumst með rellunum taka sig á loft.

Þú varst mikill barnakarl og dóttir mín elskaði þig.

En nú hefur þú fundið friðinn. Ég er þess fullviss að Guð tekur vel á móti þér í ríki sínu. Þar er örugglega þörf á laghentum manni.

Minningin um þinn góða mann lifir.

Megi Guð almáttugur styrkja elsku ömmu mína í sorg sinni.

Með kærri kveðju,

Rúnar Steinn.