Guðjón Magnússon Það er nú liðin um það bil hálf öld frá því að systir mín, Sigríður Helga, kynnti mig fyrir mannsefni sínu, Guðjóni Magnússyni sem hér er kvaddur. Þau voru þá nýtrúlofuð, hamingjusöm og bjartsýn, enda beið framtíðin þeirra, frjósöm og full af fögrum fyrirheitum. Mörg þeirra rættust, önnur þróuðust í tímans rás og tóku jafnvel á sig nýjar myndir, eins og gengur.

Með okkur mágunum tókst strax góð vinátta, enda var Guðjón skemmtilegur maður og léttur í lund. Hann var þá að læra húsgagnasmíði í trésmiðjunni Víði sem var vinnustaður hans um áratugaskeið.

Við hjónin áttum margar góðar stundir með Siggu og Guja, eins og hann var kallaður, þau buðu okkur með sér á árshátíðina hjá Guja um margra ára skeið og minnumst við þeirra gleðistunda með mikilli ánægju.

Guðjón og Sigríður eignuðust fjögur börn sem öll lifa föður sinn. Þegar börnin fóru að koma varð mikill samgangur milli fjölskyldna okkar. Börnin okkar, sem nú eru vaxin úr grasi, minnast oft jólaboðanna hjá Siggu og Guja þar sem dansað var í kringum jólatréð og sungið, fyrst í litlu stofunni á Bergþórugötunni og síðan í Gnoðarvoginum, þar sem þau bjuggu meðan börnin voru að alast upp.

Þær voru ófáar ferðirnar sem við fórum saman vestur á Ísafjörð, fjölskyldurnar tvær, til að heimsækja ættingja okkar Sigríðar og njóta þess að vera saman. Oft var þröng á þingi í litla húsinu hennar Gunnu frænku á Ísafirði, en þröngt mega sáttir sitja og í endurminningunni er eins og að þá hafi alltaf verið sól.

Fyrir tuttugu árum fórum við saman í ferðalag til Júgóslavíu, keyrðum þá um landið og skoðuðum helstu borgir og markverða staði. Í þessari ferð var Guðjón hrókur alls fagnaðar og frábær ferðafélagi. Síðastliðið sumar fórum við með þeim hjónum til Vestmannaeyja og var Guðjón leiðsögumaður okkar um sína heimabyggð. Þá grunaði okkur ekki að það yrði síðasta ferðin okkar saman.

Guðjón var afar hjálpsamur maður og vildi allt fyrir alla gera. Hann var okkur oft innan handar og minnumst við þess sérstaklega hve gott var að njóta faglegrar þekkingar hans þegar við vorum kornung að kaupa fyrstu húsgögnin okkar.

Þegar eldgosið varð í Vestmannaeyjum lét Guðjón ekki sitt eftir liggja. Hann bauð þegar í stað fram aðstoð sína og fór þangað til að hjálpa til við það sem gera þurfti.

Guðjón var höfðingi heim að sækja og var heimili þeirra hjóna alltaf opið vinum þeirra og ættingjum. Við hjónin þökkum nú allar samverustundir liðinna áratuga.

Mikill harmur er kveðinn að Sigríði systur minni, sem kveður nú sinn lífsförunaut, börnum þeirra, barnabörnum og barnabarnabörnum, en Guðjón var þeim einstakur faðir og afi. Ég og fjölskylda mín sendum þeim, og ástvinum öllum, okkar innilegustu samúðarkveðjur. Guð gefi ykkur styrk í sorginni.

Jón Gunnar Ívarsson.