Hermann Ragnar Stefánsson

Hermann Ragnar Stefánsson hefur nú kvatt þennan heim og við sem eftir lifum skulum minnast alls þess sem hann kenndi okkur meðan hann steig sinn lífsdans. Þúsundir Íslendinga hafa stigið dansspor undir handleiðslu hans enda hafði hann verið danskennari í 50 ár með frú Unni sér við hlið sem sína stoð og styttu gegnum súrt og sætt.

Í starfi danskennara hittir maður margan manninn og fólk vill gjarnan segja frá því hvar það lærði fyrst að dansa. Ætíð ljómar andlit fólks sem segir frá dansminningum sínum úr Skátaheimilinu við Snorrabraut, úr salnum við Háaleitisbraut eða hinum ýmsu félagsheimilum víða um land. Flestir fóru sem börn, með spariskó í poka, og lærðu að hneigja sig og bjóða upp. Aðrir mættu nýgiftir með maka sínum og treystu hjónabandið í dansi og enn aðrir gerðu hvort tveggja og fundu jafnvel lífsförunaut sinn á dansgólfinu. Kynslóð eftir kynslóð hefur sagan endurtekið sig og í dag eru það ósjaldan afarnir og ömmurnar sem láta skrá barnabörnin í "sinn" danskóla og það gladdi Hermann Ragnar. Hans kappsmál alla tíð var að sem flestir fengju að njóta þeirra forréttinda að geta dansað og skoðun hans var sú að dansinn væri hvort tveggja í senn, listgrein og holl íþrótt.

Hermann Ragnar var hæglátur maður og kurteis en samt mikill baráttumaður sem neitaði að láta í minni pokann fyrir nokkru vandamáli eða fyrirstöðu sem mætti honum. Hann barðist alla tíð fyrir útbreiðslu og velferð alls dans á Íslandi. Hann var einn af stofnendum Þjóðdansafélags Reykjavíkur, hann studdi vel við uppgang ballets á Íslandi og varði nokkru af sínum síðustu kröftum sem meðlimur í stjórn Styrktarfélags íslenska dansflokksins. Hann var í fararbroddi danskennara á Íslandi þegar hefja átti samkvæmisdans til vegs sem keppnisíþrótt og þar lét árangurinn ekki á sér standa. Hermann gladdist innilega síðastliðinn vetur þegar haldið var í fyrsta sinn Norðurlandameistaramót í dansi hér á landi. Hann barðist fyrir því að danskennsla yrði gerð að skyldufagi í grunnskólum landsins og fylgdi úr hlaði tilraunakennslu þar sem öll börn í einum árgangi í Reykjavík fengu tilsögn danskennara í átta tíma á vetri. Hermann var og er sameiningartákn danskennara á Íslandi, og var kjörinn fyrsti forseti Dansráðs Íslands.

Hermann Ragnar kom víða við og það sem hér var upptalið er aðeins brot af því sem hann tók sér fyrir hendur. Hann var vinsæll útvarpsmaður, æskulýðsfrömuður og vann einnig mikið í félagsstarfi aldraðra Hann vann ötullega að líknarmálum, var dugmikill skáti og þjónaði kirkju sinn og Guði alla tíð. Ég dáðist að þeirri atorku sem Hermann Ragnar bjó yfir, sérstaklega þegar til þess er litið að í mörg ár hefur hann mátt berjast upp á líf og dauða við vágesti sem sótt hafa að honum. En Hermann sneri ætíð vörn í sókn og hefur leiðbeint öðrum um að gera slíkt hið sama.

Hermann Ragnar var sannur vinur vina sinna, því hef ég verið svo heppinn að kynnast undanfarin ár. Kynni okkar hófust þegar hann var forseti Dansráðsins árið 1991 og ég var kjörinn í stjórn þess. Hann tók stráknum strax sem jafningja og við fundum fljótt takt til að vinna vel saman þrátt fyrir að ég væri ungur og óreyndur og hann elstur. Síðustu árin höfum við starfað saman að danskennslu og þar naut ég leiðsagnar hans og stuðnings. Þótt árin færðust yfir og veikindi tækju sinn toll þá hafði hann svo margar hugmyndir, vilja og starfsorku til framkvæmda að maður mátti hafa sig allan við að fylgja honum eftir. Hann hafði lag á því að beisla orku ungs fólks og kenna því að nýta hana til góðra hluta. Hermann Ragnar sagði mér einu sinni að sér fyndist skemmtilegast að kenna börnum að dansa og sjaldan sá maður hann ánægðari en þegar hann fylgdist með ungum nemendum sínum dansa á skemmtunum skólans og sá þá svífa um gólfið án þess að kappið bæri fegurðina ofurliði, en þau orð séra Friðriks Friðrikssonar voru hans einkunnarorð og hann vissi að þannig næðist best árangur í dansi.

Ánægðastur var þó Hermann Ragnar í faðmi eiginkonu sinnar og fjölskyldu sem hann ræktaði með ást og umhyggju sem hann fékk ríkulega endurgoldna og í því fólst hans lífskraftur og fyrir það var hann Guði þakklátur. Og nú er Hermann hjá Guði og þar heldur hann áfram að kenna dans, það veit ég því Hermann sagði mér að það ætlaði hann sér að gera.

Elsku Unnur og fjölskylda, megi góður Guð vera með ykkur.

Vertu sæll að sinni, kæri vinur.

Jóhann Örn.