Guðjón Magnússon

Elsku Guðjón tengdapabbi. Nú þegar þú hefur lagt upp í þína hinstu ferð, streyma fram í huga okkar allar yndislegu minningarnar sem eru okkur svo dýrmætar. Það var svo gott að tala við þig því þú kunnir að hlusta og sagðir aldrei þínar skoðanir nema maður bæði þig um það, þess vegna var gott að leita til þín. Alltaf varstu tilbúinn að hjálpa án skilyrða en baðst sjaldan um hjálp sjálfur. Þú og Sigga sáuð um að halda fjölskyldunni saman með alls konar uppákomum og ferðalögum. Ferðalög og bíllinn áttu stóran sess í lífi þínu en Sigga átti þó stærstan og það duldist engum hve kært var með ykkur. Bíllinn var alltaf stífbónaður og glansandi. Já, vönduð vinnubrögð þar, eins og allt sem þú komst nálægt. Oft máttum við verða fyrir barðinu á stríðni þinni sem var þó góðlátleg enda hafðir þú gott skopskyn. Þó svo að yfirleitt hafi nú hnussað í þér yfir nýrri tækni varstu samt fljótur að tileinka þér hana eins og útmáða fjarstýringin ber vitni um og að sjálfsögðu þráðlausi síminn. Þú svaraðir í raun helst ekki í síma þar til þú fékkst þann þráðlausa. Alltaf varstu vinnusamur, kæri Guðjón, og misstir ekki úr dag í vinnu þrátt fyrir mikil veikindi, sem reyndust alvarlegri en þú vildir láta í ljós. Vinnusemi þín átti kannski þátt í því að þér leið best í þægilegum fatnaði og hvítflibba og bindi klæddist þú einungis í brýnustu neyð.

Elsku Guðjón, þú varst ekki maður sem flíkaðir tilfinningum eða líðan þinni, en við fundum samt alltaf hve vænt þér þótti um okkur og vonum við að þú hafir fundið það líka hve okkur þótti vænt um þig þó það hafi ekki verið sagt með berum orðum. Einn af okkar stóru vinningum í lífinu var að eignast þig fyrir tengdapabba. Elsku Guðjón, minning þín lifir í hjörtum okkar. Við sjáumst öll aftur hinum megin. Elsku Sigga, missir þinn er mikill, en við vonumst til að geta stutt þig í sorg þinni.

Kær kveðja.

Guðný, Rúnar og Margrét.