Hermann Ragnar Stefánsson Elsku afi. Þá er komið að kveðjustund. Það er erfitt að minnast þín í örfáum orðum, það verður svo margt eftir ósagt.

Þegar ég fæddist voruð þið mamma ein á landinu, öll fjölskyldan var erlendis í mismunandi erindagjörðum. Þú hringdir strax í ömmu og sagðir: "Sæl amma, þetta er afi." Það tók hana smátíma að skilja þetta, ég var allt of snemma á ferðinni. Þetta var í lok ársins 1977 þegar þú varst mikið heima vegna veikinda. Módelsamtökin voru í blóma og amma hafði mikið að gera, einnig var mamma á fullu, hún var flugfreyja og tók að sér langtímaverkefni eins og t.d. Pílagrímaferðir. Þess vegna sátum við tvö uppi með hvort annað fyrstu ár ævi minnar og það er ekki hægt að segja að okkur hafi leiðst. Þú kenndir mér fullt af sögum og ljóðum og ég var búin að læra að lesa áður en ég byrjaði í Ísaksskóla.

Ég man eftir einu atviki, þegar þið amma fóruð til Ítalíu 1981 í þrjár vikur. Þið hringduð heim og sögðuð að þetta væri allt of langur tími fyrir ykkur tvö ein, svo mamma sendi mig til ykkar og ég var hjá ykkur síðustu vikuna. Þú tókst á móti mér á flugvellinum með mjólkurbrúsa í hönd og ekki leið á löngu þar til hann var orðinn tómur. Þú vissir alltaf hvað ég vildi.

Við eyddum miklum tíma saman, við bjuggum lengi í sama hverfi og fyrir nokkrum árum fluttum ég, mamma og Árni inn til ykkar. Þið Árni sáuð alltaf um kvöldkaffið og mikið var spjallað yfir því. Að ekki sé minnst á allar bílferðirnar okkar, þú sóttir mig og keyrðir allt áður en ég fékk prófið.

Þú varst alltaf svo blíður og góður og þú hefur heldur aldrei kunnað að segja nei. Þú sagðir sjálfur að það væri þinn versti galli. Þú hafðir eflaust rétt fyrir þér.

Í danskennslu naustu þín alltaf og allir í kringum þig vissu hve mikið þú hlakkaðir til laugardagsmorgna þegar minnstu börnin komu í dans og hve hátíðlega þú tókst öllum uppákomum sem vörðuðu dans, hvort sem var danskeppni eða hvers kyns sýningar.

Þú stjórnaðir líka þættinum þínum "Ég man þá tíð" af einstakri natni og þér þótti vænt um öll bréfin og símhringingarnar sem þú fékkst vegna hans. Ég vildi alltaf fá að aðstoða þig við skýrslugerðina og kom það sér vel núna á síðustu mánuðum því ég hef getað skrifað hana fyrir þig.

Alltaf barstu þig svo vel að margir áttuðu sig ekki á því hve alvarlega veikur þú varst. Þegar síga tók á seinni hlutann settir þú þér alltaf ákveðin markmið, gafst aldrei upp. "Ég skal," sagðir þú og fórst eftir því.

Þetta síðasta stríð hefur verið langt og erfitt en nú ertu kominn á góðan stað þar sem verkir finnast ekki.

Enginn þarf að óttast síður,

en Guðs barna skarinn fríður.

Fugl í laufi innsta eigi,

ekki stjarna á himinvegi.



Hann vor telur höfuðhárin,

heitu þerrar sorgartárin.

Hann oss verndar, fatar, fæðir,

frið og líf í sálum glæðir.



Svo er endar ógn og stríðin,

upp mun renna sigurtíðin.

Oss þá kallar, heim til hallar,

himna Guð er lúður gjallar.

Þín

Unnur Berglind.