Hermann Ragnar Stefánsson Hetja er fallin í valinn. Góður drengur genginn, "meira að starfa Guðs um geim". Það er ekki öllum gefinn slíkur andlegur styrkur að berjast jákvæðri hetjubaráttu í áratug við þann ógnvald sem læknavísindin hafa ekki ennþá unnið bug á ­ krabbameinið.

Ekki í eitt einasta sinn öll þessi löngu baráttuár heyrði ég uppgjafartón frá mínum kæra félaga. Ávallt var horft til framtíðar með vonina og birtuna að leiðarljósi. Hann trúði á lífið, og svo sannarlega hefði hann getað tekið undir ­ og um hann eiga vel ­ ljóðmæli enska skáldjöfursins Longfellow, er skáldið segir:

Líf er nauðsyn ­ lát þig hvetja,

líkstu ei gauði ­ berstu djarft.

Vertu ei sauður, heldur hetja,

hníg ei dauður fyrr en þarft.

Hann barðist djarft. Hann var mikil hetja.

Á kveðjustundu skulu færðar þakkir fyrir áratugakynni. Kynni sem aldrei gleymast, kynni sem nánast öll gáfu af sér gleði og góðvild. Ég þakka vini mínum Hermanni fyrir að hafa leitt mig ungan til starfa fyrir Lionshreyfinguna, þau samtök manna sem eiga sér að kjörorði "að lýsa þeim sem ljósið þrá, en lifa í skugga". Minning Hermanns Ragnars mun ávallt heiðruð meðal Baldursbræðra.

Ég flyt kveðjur frá "Gönguklúbbs-systrum", þeirra mökum og fjölskyldum. Minningarnar um sumarkvöldin, þá er við reistum okkar tjöld og kveiktum elda með börnunum okkar í fögrum skógarrjóðrum stórbrotins ættarlands, þær minningar lifa. Ferðir til fjarlægra landa í góðra vina hópi, ylja hjartarætur.

Já, góður drengur er genginn. Inga mín og sá sem þessar línur ritar, þakka liðnar sælustundir ­ að sinni. En í bjargfastri trú og vissu um sannleika orða Meistarans mikla er hann sagði: "Ég lifi, og þér munuð lifa" ­ þá munu gamlir vinir hittast að nýju á ströndum eilífðar.

Verði mínum kæra félaga hvíldin vær.

Magnús Erlendsson.