Hermann Ragnar Stefánsson Mig setti hjóðan þegar mér barst sú fregn að félagi minn og vinur, Hermann Ragnar Stefánsson, væri látinn.

Kynni okkar Hermanns Ragnars hófust þegar við vorum aðeins 14 ára gamlir og lágu leiðir okkar þá saman í Skátahreyfingunni. Af einhverjum ástæðum löðuðumst við hvor að öðrum. Eftir því sem árin liðu óx vinátta okkar, jafnvel þótt áhugamál okkar væru um margt ólík, hans aðaláhugamál dansinn en mitt jökla- og hálendisferðir.

Á okkar yngri árum voru það ekki svo fáar útilegurnar og skátamótin sem við fórum saman á. Seinna þegar við eignuðumst hvor um sig okkar fjölskyldur fórum við öll saman m.a. í fjölskyldubúðir skáta.

Árið 1958 stofnaði Hermann Ragnar dansskóla sinn í Skátaheimilinu við Snorrabraut. Þar hlutum við hjónin okkar fyrstu tilsögn í dansi.

Eftir því sem árin liðu urðu samskipti okkar fjölbreyttari. Til margra ára fórum við hjónin ásamt Hermanni Ragnari og Unni, konunni hans, á frumsýningu í Þjóðleikhúsinu á annan dag jóla. Eins fórum við í mörg ár saman á dansleik sem haldinn var á Hótel Borg á nýársdag.

Ef ég ætti að lýsa Hermanni Ragnari með fáeinum orðum þá var hann fyrst og fremst hlýr maður og hann hafði notalega návist. Hann var vinur vina sinna og ég efast um að hann hafi átt nokkurn óvin.

Í stuttri minningargrein sem þessari er útilokað að tíunda öll hin fjölbreyttu samskipti okkar í gegnum árin. Ég ætla því ekki að reyna það en vil að lokum aðeins segja þetta. Hermann Ragnar skildi það betur en nokkur annar maður sem ég hef kynnst, að við eigum öll að kappkosta, hver eftir sínum mætti, að dansa og syngja þangað til tjaldið fellur. Þegar hann sjálfur var orðinn rúmfastur og gat ekki lengur stigið sporið, dönsuðu samt í honum augun af ást til þess sem lifir. Þannig maður var hann.

Blessuð sé minning þín, gamli vin.

Við Guðrún sendum þér, elsku Unnur, og fjölskyldu þinni okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Sigurður Waage

og Guðrún Waage.