Hermann Ragnar Stefánsson Við áttum stefnumót á fimmtudögum í Útvarpshúsinu. Þótt við vissum bæði að við vorum alltaf á sama tíma inni á safnadeild, létum við alltaf eins og við yrðum hissa á að hittast. Þess vegna föðmuðumst við og kysstumst af meiri innileik í hvert skipti en gerist og gengur meðal fólks sem starfar hjá sömu stofnun.

Við Hermann Ragnar vorum vinir í næstum fjörutíu ár. Það er langur tími af ævi manneskju, sem hefur ekki einu sinni náð 45 ára aldrinum. Kynni okkar hófust í dansskóla þeirra hjóna í Skátaheimilinu við Snorrabraut þar sem hann kenndi lítilli stelpu að stíga fyrstu danssporin. Þessi bönd við Hermann Ragnar og fjölskyldu hans slitnuðu aldrei og með árunum urðu þau sífellt sterkari. Við upplifðum saman gleði og sorgir, sigra og ósigra. Við vorum góðir vinir og í návist Hermanns var kynslóðabil ekki til. Það var Hermann Ragnar, sem kynnti mig fyrst fyrir Rás 2. Hann réði mig til að sjá um fréttapistla í þætti sínum "Dansrásin", sem var á dagskrá á föstudagskvöldum á árdögum Rásar 2. Þegar lögin "fóru í loftið" stóð Hermann Ragnar upp, hneigði sig djúpt og saman dönsuðum við um herbergið. Þetta voru yndisleg kvöld, sem mér verður oft hugsað til.

Hermann Ragnar hefur alltaf átt stórt pláss í hjarta mínu. Hann var vinur minn þegar ég var lítil stelpa, sem hélt að lífið væri dans á rósum. Hann var vinur minn þegar ég komst að því að þyrnarnir eru nokkuð margir á rósarunnunum og hreint ekki alltaf auðvelt að dansa á þeim. Hann var sannur vinur, sem kunni að gleðjast og syrgja með vinum sínum. En hann gaf ekki bara vinum sínum af sér. Hann kenndi þessari þjóð að bera virðingu fyrir dansinum eins og öðrum íþróttagreinum, hann kenndi litlum börnum aga og að bera virðingu fyrir öðrum.

Það kemur aldrei neinn í stað Hermanns Ragnars. Þess vegna syrgi ég hann. Ég syrgi hann þótt ég viti að eins og komið var, var ekkert betra fyrir hann en að fá hvíldina. Hermann Ragnar hefði ekki viljað lifa því lífi, sem honum bauðst síðustu vikurnar. Í minningu minni er Hermann Ragnar brosandi og svífur um dansgólfið í fallegu fötunum sínum. Þannig er hann ábyggilega á þessari stundu ­ heilbrigður og glaður að stíga vals við einhvern af englunum; einhvern, sem var honum jafn sannur vinur hér á jörðu og hann var okkur, sem kveðjum hann nú.

Megi styrkur og æðruleysi Hermanns Ragnars í langri baráttu verða styrkur þeirra, sem hann elskaði mest; eiginkonu hans, Unnar, barnanna hans, Hennyar, Arngríms og Björns og fjölskyldna þeirra og ekki síst styrkur barnabarnanna, sem syrgja afa sinn sárt.

Einhvern veginn hélt ég að ég þyrfti aldrei að kveðja Hermann Ragnar. Fyrir mér var hann eilífur. En ég held í þá trú mína að einn góðan veðurdag ­ þegar minn tími kemur ­ verði beðið eftir mér hinum megin. Og þá veit ég að út úr hópnum stígur brosandi maður, klæddur í kjól og hvítt og segir: "Má ég bjóða þér upp í dans?"

Megi friður fylgja burtför Hermanns Ragnars Stefánssonar úr þessum heimi. Guð blessi minningu góðs vinar.

Anna Kristine Magnúsdóttir.