Hermann Ragnar Stefánsson Vinur minn og yfirmaður, Hermann Ragnar Stefánsson, hefur lokið erfiðri baráttu sinni.

Ég kynntist Hermanni Ragnari og Unni konu hans árið 1959 þegar ég byrjaði í dansnámi hjá þeim; námi sem ég stundaði í fjölda ára þannig að ég kynntist þeim ekki aðeins sem kennurum, heldur líka sem góðum og traustum vinum. Hermann Ragnar varð mér fljótlega sem annar pabbi. Hann bar umhyggju fyrir okkur krökkunum í sýningarhópunum hans og saman ferðuðumst við vítt og breitt um landið.

Fyrir 25 árum réð Hermann Ragnar mig í dansskólann til sín og þar hef ég gegnt störfum síðan. Þann vetur bundumst við sérstökum böndum, því alla þriðjudagsmorgna lögðum við af stað saman yfir heiðina til að kenna dans á Hellu og Hvolsvelli og þá var mikið talað og sungið í bílnum.

Það er margs að minnast frá 25 ára samstarfi. Kærastar eru mér þó minningarnar frá laugardagsmorgnunum okkar. Þá hittumst við löngu fyrir kennslu, fengum okkur kaffi saman og töluðum um "börnin okkar" í skólanum. Aldrei brást það, að Hermann kæmi með nýbakað með kaffinu því umhyggja hans fyrir starfsfólki sínu var einstök. Svo mikil fyrirmynd var Hermann mér, að ósjálfrátt var ég líka farin að kaupa með kaffinu, og það var mikið hlegið þegar við hittumst hlaðin plastpokum fyrir utan dansskólann.

En umhyggja Hermanns fyrir mér náði langt út fyrir vinnustaðinn. Hann var stór hluti af fjölskyldunni okkar, ekki bara okkar Trausta, Daníels og Róberts heldur líka móður minnar og systra. Eitt dæmi um umhyggjusemi Hermanns var daginn eftir brúðkaup okkar Trausta. Þá var hringt á bjöllunni og fyrir utan stóð Hermann með fullan kassa af Pepsi, því hann hafði áhyggjur af því að húsið myndi fyllast af gestum og við ættum ekkert handa þeim.

Fyrir nokkrum árum byrjaði Hermann að gefa þeim börnum, sem lengst höfðu verið í dansskólanum, fermingargjafir. Þótt heilsu hans hrakaði og hann vissi sjálfur af endalokunum gleymdi hann ekki börnunum sínum, sem fermdust nú í ár. Hann valdi sjálfur gjafirnar handa þeim, fársjúkur, og lét keyra sig til að kaupa þær.

Frá áramótum var Landspítalinn annað heimili Hermanns. Hann kunni vel að meta heimsóknirnar, sem hann fékk, og sagðist njóta þess þegar við vorum bara tvö ein, því þá gat ég sagt honum í rólegheitum frá öllum "börnunum" hans, sem hann fylgdist með fram á síðasta dag, og öllu því, sem gerðist í dansskólanum.

Það var þrennt, sem við Hermann töluðum mest um eftir að hann fór á spítalann í síðasta sinn. Hann setti sér nefnilega alltaf takmark, eitthvað sem hann vildi ná eða sjá rætast. Hann vildi að ég færi með Henny dóttur sinni ­ og góðri vinkonu minni ­ á stóru danskeppnina í Kaupmannahöfn í febrúar; hann fylgdist grannt með fermingu Róberts sonar míns, þótt hann hefði ekki komist í veisluna, og hann þráði að lifa það að Unnur Berglind útskrifaðist sem stúdent. Allar þessar óskir fékk hann uppfylltar, en ekki þá ósk að sjá öll barnabörnin sín vaxa úr grasi.

Það er mikill missir að missa góðan pabba og afa, en mestur er missir þinn, elsku Unnur, því þú hefur ekki aðeins misst eiginmanninn, heldur líka besta vin þinn og samstarfsmann. Þið voruð brautryðjendur í mörgu og voruð svo samstíga í öllu, sem þið tókuð ykkur fyrir hendur.

Enginn naut þess betur en Hermann að undirbúa veislur, enda sagði hann alltaf að þegar maður fagnaði einhverju væri þrennt að hlakka til: Undirbúningsins, veislunnar sjálfrar og minninganna frá deginum. Þess vegna var Hermann alltaf með okkur á stóru stundunum, að búa til blómaskreytingar og gæta þess að allt væri í röð og reglu og að ekkert gæti farið úrskeiðis.

Veislan, sem Hermann bauð mér til fyrir næstum 40 árum, er á enda. Þess vegna geri ég eins og Hermann kenndi mér: að fara í sjóð minninganna. Þær eru margar og góðar.

Elsku Unnur, Henny, Unnur Berglind og Árni Henry, Arngrímur, Anna og synir, Bjössi, Bestla og börn. Við Trausti, Daníel og Róbert sendum okkar dýpstu samúðarkveðjur og biðjum Guð að blessa ykkur öll.

Dýrmætan vin minn kveð ég með viðeigandi ljóði:

Hvert örstutt spor var auðnuspor með þér

hvert andartak, er tafðir þú hjá mér,

var sólskinsstund og sæludraumur hár

minn sáttmáli við Guð um þúsund ár.

(Halldór Laxness) Guð varðveiti þig kæri vinur.

Þín vinkona

Inga.