Hermann Ragnar Stefánsson Hermann Ragnar gekk í Lionsklúbbinn Baldur fyrir um 40 árum og starfaði í klúbbnum til dauðadags. Hann hafði allt til að bera til að verða góður Lionsmaður og það sannaði hann svo margsinnis. Hann var óþreytandi brunnur hugmynda um tekjuöflun fyrir klúbbinn, sem safnar fé til líknarmála og þeirra, sem hafa á einhvern hátt orðið útundan í lífinu; hvort heldur safnað vat fé til kaupa á rúmum og tækjum til Hrafnistu eða tækja til heimahjúkrunar krabbameinssjúkra, og fleira og fleira mætti telja. Hann var ýmist formaður skemmtinefndar klúbbsins, eða í nefndinni og lagði stundum til dansskólann sinn fyrir árshátíðir þar sem saman komu klúbbfélagar og konur þeirra. Eitt var þó sérstakt hlutverk þeirra hjóna, Unnar Arngrímsdóttur og Hermanns Ragnars í áratugi, en það var áramótaskemmtun fyrir börnin okkar, og síðar barnabörn. Komu þau hjón með dansara og skemmtikrafta, oft eigin börn eða barnabörn. Þarna kynntust fjölskyldurnar og unga fólkið og minnast nú þrjár kynslóðir þessara kynna.

Hermann Ragnar var fróður um margt, léttur og skemmtilegur í tali og lagði alltaf gott til mála. Hann barðist hetjulega við sjúkdóm sinn, kom á fundi þegar heilsan leyfði seinustu árin og við hlökkuðum alltaf til að sjá hann aftur. Við söknum góðs vinar og minning hans mun lifa með okkur.

Ragnar Borg.