Óli Valgeir Hjartarson Nú er Óli frændi minn farinn og hvílir hann nú í friði. Hann lést 93 ára gamall.

Ég minnist Óla fyrst þegar ég var lítil stelpa sex ára gömul. Ég byggði bú með leggjum og hornum ásamt frænku minni Vilborgu Hólmjárn sem dvaldist í stuttan tíma hjá þeim Óla og Dóru. Óli bjó til litla staura fyrir okkur og hjá honum fengum við líka band og hamar. Ég man svo vel eftir glöðu andlitinu þegar Óli kom öðru hverju til þess að sjá hvernig okkur miðaði girðingarvinnan. Hann gaf okkur af tíma sínum og það með glöðu hjarta.

Í heilan vetur fór ég og horfði á barnatíma Sjónvarpsins hjá Dóru og Óla. Alltaf var mér jafn vel tekið og yfirleitt var nú seilst í stóra stofuskápinn og náð í eitthvað gott til að færa mér. Þetta voru miklar ánægjustundir og þó Óla hafi ekki orðið barna auðið var hann mjög barngóður og hann gaf af gleði og hlýju sinni. Margir unglingar dvöldust sumarlangt hjá Óla og Dóru og iðulega minntist Óli þessa unga fólks með söknuði því þegar veturinn færðist yfir urðu þau bara tvö eftir.

Ég man líka vel eftir bílnum hans Óla, bláa Villysinum. Bíllinn var hans stolt og það var sama hvenær maður fékk að setjast upp í alltaf var hann tandurhreinn og fínn. Óli hirti vel um bílinn eins og reyndar vélar og annað sem tilheyrði búinu. Hann var natinn maður sem hugsaði vel um sitt.

Þegar Óli var 85 ára hættu hann og Dóra búskap. Þau keyptu lítið og notalegt hús á Hvammstanga og þar eyddi Óli síðustu æviárunum sínum. Eins og áður var Dóra hans stoð og stytta. Hún vakti yfir velferð bróður síns í einu og öllu.

Nú er komið að kveðjustundinni, kæri frændi. Ég þakka þér fyrir allt á liðinni tíð og bið þann sem vakir yfir okkur að taka vel á móti þér.

Guð blessi minningu þína, Óli frændi.

Kristín.