Ingibjörg Skúladóttir Okkur systrum er minnisstæður sá dagur er Karl móðurbróðir okkar birtist á heimili okkar á Suðurgötu 22 með Ingibjörgu Skúladóttur sér við hönd og tilkynnti hátíðlega trúlofun þeirra.

Þó allir yrðu himinlifandi yfir þessari fregn óraði okkur ekki fyrir því hvílík gæfa hafði fallið Kalla og allri fjölskyldu okkar í skaut.

Nú er við kveðjum Bitten viljum við minnast hennar og þakka.

Hún var bjargið sem aldrei haggaðist, hún var mannasættir og gleðigjafi í fjölskyldu okkar í 50 ár. "Dæmið ekki," sagði hún og eftir því lifði hún. Þótt hún ynni oftast fullan vinnudag utan heimilis virtist hún alltaf hafa nógan tíma fyrir aðra.

Þegar hún frétti af komu ferðamanna til landsins á vegum fjölskyldunnar, hvort sem það var víetnamskur tengdafaðir, dönsku tengdaforeldrarnir, þýskur frændi eða aðrir, var alltaf boðið í Stíflisdal.

Þar hlóðust veisluborðin að því er virtist sjálfkrafa meðan gestgjafar fögnuðu gestum með fádæma glaðlegu og skemmtilegu viðmóti.

Elsku Kalli, þú ert mikill gæfumaður að hafa fengið að njóta slíkrar konu í hálfa öld. Það er huggun harmi gegn.

Hjördís, Erla,

Hildegard, Anna.