Ingibjörg Skúladóttir Kveðja frá vinkonum

Við fráfall Ingibjargar Skúladóttur er okkur sem áttum hana að vini um áratuga skeið fyrst og fremst í huga þakklæti fyrir góða samfylgd og þann rótgróna hlýhug sem hún varpaði jafnan á allt umhverfi sitt.

Hún var af íslensku bergi brotin í föðurætt en móðurættin var norsk. Æskuárin átti hún á Íslandi, unglings- og menntaskólaárin í Noregi en fluttist alkomin til Íslands að lokinni síðari heimsstyrjöldinni þar sem hún hugðist stunda læknisnám við Háskóla Íslands. Því námi lauk hún að vísu ekki, en mér finnst nú þegar ég hugsa til baka að hugsjónin sem ríkust er í fari góðra lækna sem farsælir eru í starfi hafi alltaf sett nokkurn svip á feril hennar ­ nefnilega tök hennar á að leiða allt til betri vegar, leysa vanda þegar hann bar að höndum, annast trúnaðarstörf og sýna náunganum virðingu í öllum samskiptum. Slíkt er aðalsmerki allra góðra manna.

Frá Noregi hafði hún í farteskinu enduróm af norskum menningarstraumum, sem hún varðveitti alla tíð og sameinaði því sem séríslenskt var.

Enda þótt hún færi ekki varhluta af andstreymi frekar en önnur mannanna börn, átti hún farsælt og viðburðaríkt líf við hlið eiginmans síns, Karls Eiríkssonar ­ hvort sem var á vettvangi heimilisins, við rekstur fjölskyldufyrirtækisins, eða við að gleðja og hlúa að fólki og nýgræðingi á jörðinni þeirra í Stíflisdal, þar sem fjölskyldan átti margar unaðsstundir. En hvarvetna var henni eðlislægt að gera daginn bjartari, hvort sem hlut áttu að máli nákomnir ættingjar, vinir eða gestir og gangandi.

Það sem einkenndi persónu hennar voru skarpar gáfur, jákvæð viðhorf til manna og málefna, hógværð í fasi og hæfileiki til að greina hin sönnu gildi mannlífsins. Slíkt er bæði persónunni sjálfri og þeim sem hana umgangast gulls ígildi.

Þegar góður vinur hverfur yfir móðuna miklu sækja að hugsanir um hin hinstu rök. Eftir situr samt spurnin stóra. Í bók sinni Líf og dauði hvetur próf. Sigurður Nordal menn til íhugunar um þau mál vegna þess, eins og hann segir að " . . . hugsun er máttur. Á einni stuttri stundu, sem við horfum berum augum á undur mannlegra örlaga, geta sprottið upp fólgnar lindir í hug og hjarta ­ og ýmiss konar þekking, sem áður var visin og dauð, orðið lifandi og starfandi þáttur í vilja okkar og breytni. Listin að lifa, erfiðasta, nauðsynlegasta og æðsta list allra lista, er framar öllu listin að hugsa ­ að hugsa frjálslega, af einlægni, djörfung og alvöru".

Mér finnst Ingibjörgu Skúladóttur hafa tekist vel að hafa slík hvatningarorð að leiðarljósi.

Fyrir hönd vinkonuhópsins sendi ég Karli og fjölskyldunni allri einlægar samúðarkveðjur.

Hulda Valtýsdóttir.