Ingibjörg Skúladóttir Heimili okkar Sigríðar Ingimarsdóttur var á fyrstu hjúskaparárum okkar á Fálkagötu 13 í Reykjavík. Þetta hús er ekki langt frá Háskóla Íslands, en þar stunduðu þá nám tvær vinkonur Sigríðar, þær Jóhanna Guðmundsdóttir er síðar giftist Thorolf Smith, blaðamanni, og Ingibjörg Sigríður Skúladóttir sem síðar varð eiginkona Karls Eiríkssonar, flugmanns og forstjóra.

Jóhanna dó ung að árum og nú er Ingibjörg, Bitten eins vinir hennar nefndu hana, einnig látin sjötug að aldri.

Þessar fallegu ungu stúdínur úr læknadeild Háskóla Íslands lögðu stundum leið sína á heimili okkar, en gáfur þeirra og glæsileiki fóru ekki fram hjá neinum.

Mörgum árum síðar vildi svo til að við Sigríður eignuðumst heimili að Efstaleiti 12 hér í bæ, en á sömu hæð hússins nálægt okkur bjuggu Ingibjörg og Karl Eiríksson. Þetta nábýli stóð í heilan áratug og allar þær stundir sem við áttum saman á heimili þeirra eru okkur kær minning.

Þessi glæsilegu hjón og góðu nágrannar, Karl og Bitten, áttu einnig mikinn þátt í því að gera lífið í þessu húsi svo skemmtilegt og eftirminnilegt sem það var.

Það sem einkenndi Ingibjörgu Skúladóttur var kannski fyrst og fremst þær augljósu gáfur sem henni voru gefnar.

Þegar hún beindi athygli sinni að málefnum þá virtist hún eiga þann eiginleika að meta og skoða hlutina þannig að flest virtist einfalt og auðvelt. Allt virtist leika í höndum hennar. Ég held að Ingibjörg hafi verið stærðfræðingur af Guðs náð. Hún var raunar ævinlega með einhver viðfangsefni. Ef ekki var vinnan þá glímdi hún jafnan við ýmiss konar lausnir, hvort sem það voru krossgátur, leikir með spil, getraunir, sjónvarps- spurningaþættir eða hvað það nú allt heitir. Með öllu þessu fór hún létt með að prjóna dýrindis flíkur á stuttum tíma.

Öll matargerð fór Bitten einnig sérstaklega vel og myndarlega úr hendi, hvort sem heldur var um forna íslenska og norska rétti að ræða eða nýrri krásir ­ og var þá sama hvort hún reiddi fram mat fyrir fáa eða marga. Gestrisni þeirra hjóna er viðbrugðið.

Mild hógværð var í öllu fasi Ingibjargar, þannig að öllum hlaut að líða vel í návist hennar, en trygglyndi og umhyggjuhneigð fyrir öðru fólki var henni eiginleg.

Hjónaband þeirra Karls einkenndist af gagnkvæmri ást og virðingu og fjölskyldubönd öll voru traust og sterk.

Þann 19. apríl sl. komu þau Ingibjörg og Karl í heimsókn til okkar Sigríðar á Dalbraut 25 í Reykjavík til þess að kveðja okkur vegna stuttrar utanfarar þeirra og til þess að athuga hvernig okkur liði á nýju heimili. Þau komu færandi hendi eins og venjulega. Ekki óraði okkur fyrir því að þarna kveddum við Bitten í síðasta sinn.

Með þakklæti fyrir liðna tíð sendum við Karli og allri fjölskyldu þeirra Ingibjargar samúðarkveðjur.

Vilhjálmur Árnason.