Reynir Örn Kárason Lítill hnoðri. Allt of lítill. Þegar við komum með Ásgeir Boga sex vikna austur kom Helga Björg með fullan poka af samfellum og bað okkur endilega að nota þetta á strákinn. Hún var hætt. Þetta var í júlí en níu mánuðum síðar fórum við með sama poka á fæðingardeildina; pínulítill hnoðri var fæddur.

Lítill og knár. Svo lítill að honum var vart hugað líf. En seiglan í einu barni. Hann vildi sjá sitt.

Árið sem við bjuggum á Borgarfirði fylgdumst við oft með litla gaurnum þar sem hann vappaði um hverfið. Í hvaða veðri sem var, alltaf var litli maðurinn einhvers staðar að dunda sér. Á meðan stóri bróðir og stóra systir ærsluðust í fjörugum leik var litli maðurinn að rannsaka heiminn á eigin spýtur.

Um síðustu páska bauð Vala Bára til afmælisveislu. Gestirnir söfnuðust saman og tóku að bragða á kaffibrauðinu. Kom þá ekki afmælispakki fljúgandi inn um eldhúsgluggann. Inn um sjálfar dyrnar kom Reynir Örn og óskaði leikskólakennaranum sínum til hamingju með daginn. Hann var mættur til veislu ­ upp á eigin spýtur.

Í litlum bæ hefur stór sorg barið dyra. Hann Reynir Örn á góða að sem taka vel á móti honum á himnum. Afi fær að hitta litla strákinn sinn og ásamt Jóni Braga munu þeir gæta drengsins vel. Himnarnir fá til sín fallegan engil. Góða fjölskylda, megi guð veita ykkur styrk í sorginni.

Arngrímur Viðar, Sesselja, Ásgeir Bogi og Gréta Sóley.