Elsa Dóróthea Sigurðardóttir Um móðursystur mína á ég margar fallegar minningar, ljúfa, hægláta og elskulega konu. Það var í byrjun febrúar sl. að hún kenndi sér meins sem reyndist ólæknandi.

Það er erfitt að sætta sig við þá staðreynd að það sem við köllum oft "fasta punkta í tilverunni" hverfur og nú er skammt stórra högga á milli því systir Elsu, Oddný móðir mín, lést í febrúar.

Það var ákaflega þægilegt að hafa Elsu frænku nálægt sér og tók hún með ljúfu geði þátt í öllu sem í boði var og öll tilbreyting frá hinu hversdagslega amstri var henni kærkomin og þurfti oft ekki mikið til að kæta hana og gleðja. Það eru góðir förunautar á lífsleiðinni sem kenna manni lítillæti og hógværð á öllum sviðum og taka með jafnaðargeði því sem að höndum ber. Eins gerði hún lítið úr því þegar hún vissi að hverju dró í veikindunum. Þegar ég frétti að tæplega mætti vænta langrar hérvistar hennar, töluðum við saman og spurði ég hana hvort við ættum ekki að gera okkur dagamun. Hún hélt það nú. Og það gerðum við. Áttum við saman fjóra heila daga, heimsóttum gott fólk, rifjuðum upp gamlar minningar úr Vestmannaeyjum, hlógum og nutum þessara samverustunda báðar tvær. Og það gladdi mig mjög þegar ég spurði hvort hún væri ekki þreytt, að hún svaraði hlæjandi: "Þreytt, nei, veistu það, ég held að það sé bara ekkert að mér, ég er hætt við að vera lasin." Þetta sýnir hvað henni var eiginlegt að taka því sem að höndum bar með ljúfu æðruleysi.

Þakka þér fyrir góðu stundirnar, elsku frænka. Guð blessi þig.

Þín frænka,

Oktavía.