HIÐ opinbera gegnir mikilvægu og nauðsynlegu hlutverki gagnvart atvinnulífinu því það mótar starfsskilyrði atvinnulífsins með margvíslegum hætti. Skýrasta dæmið um þetta er setning laga og reglugerða sem atvinnustarfsemin verður að lúta. Lög og reglur hins opinbera setja fyrirtækjunum leikreglur sem eiga að vera forsenda heilbrigðs markaðssamfélags og eðlilegrar samkeppni.

Reglubyrði og

samkeppni

Margir vilja líkja lögum og reglum nútímans við myrkvan og ógreiðfæran frumskóg, segir Jón Steindór Valdimarsson, og ekki að ósekju.

HIÐ opinbera gegnir mikilvægu og nauðsynlegu hlutverki gagnvart atvinnulífinu því það mótar starfsskilyrði atvinnulífsins með margvíslegum hætti. Skýrasta dæmið um þetta er setning laga og reglugerða sem atvinnustarfsemin verður að lúta. Lög og reglur hins opinbera setja fyrirtækjunum leikreglur sem eiga að vera forsenda heilbrigðs markaðssamfélags og eðlilegrar samkeppni.

Mikið umfang

Alþingi fer með löggjafarvaldið og þingmenn setja þegnunum lög. Í lögum Alþingis er einstökum ráðherrum iðulega falið vald til að setja reglur um nánari útfærslu laganna með reglugerðum. Laga- og reglugerðarsetning er umfangsmikil og hefur farið vaxandi hin síðari ár. Til þess að gefa hugmynd um vöxt þessa kerfis skal greint frá lauslegri könnun sem tekur til áranna 1990-1996. Skýrt skal tekið fram að hér er allt talið, hvort sem það snertir atvinnureksturinn eða ekki. Frá Alþingi komu um 1.000 lög og lagabreytingar. Í B-deild stjórnartíðinda birtust um 4.500 reglugerðir, reglugerðarbreytingar, reglur, auglýsingar, gjaldskrár og samþykktir frá ráðuneytum. Samtals eru þetta um 5.500 gerðir eða rúmlega tvær hvern einasta dag þessa tímabils frá Alþingi og ráðuneytum. Allt er þetta viðbót við þann urmul sem fyrir er.

Millimetralýðræði

Það gefur augaleið, að erfitt getur verið fyrir fyrirtæki að átta sig á, hvort og hvaða reglur taka til þess sem fengist er við hverju sinni. Margir vilja líkja lögum og reglum nútímans við myrkvan og ógreiðfæran frumskóg og ekki að ósekju. Hið flókna nútíma- og velferðarsamfélag krefst þess, að fyrirtækin eins og aðrir axli sína ábyrgð og leggi sitt af mörkum til sameiginlegrar velferðar. Þess vegna efast enginn um nauðsyn þess að setja margvísleg lög og reglur sem atvinnurekstur verður að lúta. Ef hins vegar er farið offari í þessum efnum verður niðurstaðan smásmygli og millimetralýðræði. Því miður hefur tilhneigingin verið sú að setja reglur um alla skapaða hluti, leggja á smágjöld og skatta, auka skrifræði, bæði innan og utan fyrirtækjanna. Segja má að byrðar fyrirtækja vegna reglusetningar hins opinbera séu orðnar verulegar. Það er því réttmætt að staldra við og kanna hvort öll þessi reglubyrði er nauðsynleg eða hvort megi draga úr henni án þess að hin samfélagslegu markmið tapist.

Allir eru að gera það . . .

Athygli stjórnvalda í vestrænum ríkjum hefur á síðustu árum og misserum beinst að þessum vanda vegna þess að margvíslegar athuganir benda til að þarna sé að finna mestu möguleikana til þess að auka samkeppnishæfni fyrirtækja og atvinnulífs.

Í Noregi setti Stórþingið upp nefnd um þetta mál sem skilaði umfangsmikilli skýrslu sem ber heitið Bedre struktur i lovverket eða Betra skipulag regluverksins, (NOU 1992:32). Í kjölfarið hafa NHO, samtök atvinnulífsins í Noregi, ráðist í viðamikið verkefni sem þau kalla Regelforenklingsprosjekt: Et næringsvennlig lovverk sem mætti útleggja sem Einföldun reglna: Reglur í þágu atvinnulífsins.

Danir hafa einnig unnið ötullega að þessu verkefni á síðustu misserum. Danska ríkisstjórnin gerði um síðustu áramót sérstaka grein fyrir stefnumótun sinni til uppbyggingar dönsku atvinnulífi. Hún skiptir atvinnustefnu sinni í fimm áherslusvið: Færri og betri lög, betri aðgang að upplýsingum, opinbera kerfið taki meira mið af þörfum atvinnulífsins, alþjóðavæðing fyrirtækja auðvelduð og loks meira og ódýrara fjármagn. Það vekur athygli að danska ríkisstjórnin telur endurskoðun regluverksins forgangsverkefni.

Evrópusambandið, sem margir telja ótæmandi uppsprettulind flókins regluverks og þess vegna ímynd hins vonda í þessum efnum, hefur meira að segja hrundið af stað herferð og áætlunum til þess að grisja sinn skóg sem þeir kalla hinu táknræna heiti SLIM - Simpler Legislation for the Internal Market. Í þessu sambandi er fróðlegt að skoða umfangsmikla könnun sem UNICE - Samtök iðn- og atvinnurekenda í Evrópu gerðu árið 1995 og ber heitið Releasing Europe's Potential Through Targeted Regulatory Reform eða Evrópa leyst úr dróma reglugerðanna. Þar kemur fram sú óvænta niðurstaða að það eru reglur settar af stjórnvöldum einstakra ríkja sem hafa vaxið mest á undanförnum árum og að það eru þessar reglur sem leggja mestar byrðar á fyrirtækin en ekki þær sameiginlegu sem gefnar eru út í Brussel.

Allir virðast sammála um að brýnt sé að grisja þennan skóg og endurskipuleggja og hafa mörg ríki hafist handa við að taka til í eigin ranni . . . nema við?

Árið 1995 setti iðnaðarráðherra á laggirnar nefnd um lítil og meðalstór fyrirtæki og samkeppnishæfni atvinnulífsins. Í henni áttu sæti fulltrúar úr atvinnulífi og stjórnkerfi. Verkefni nefndarinnar var, eins og nafnið bendir til, að gera tillögur til ráðherra um atriði sem gætu bætt samkeppnishæfni atvinnulífsins. Fyrstu tillögurnar sem nefndin varð sammála um gera til ráðherrans fjölluðu um aðgerðir til þess að draga úr neikvæðum áhrifum af reglubyrði á samkeppnishæfni fyrirtækja. Tillögurnar fjölluðu annars vegar um einföldun laga og reglugerða og hins vegar um kerfisbundið mat á áhrifum nýrra laga og reglugerða á atvinnulífið. Eftir því sem best er vitað var tillögunum allvel tekið.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa gert einföldun laga og reglugerða að umtalsefni. Davíð Oddsson, forsætisráðherra, sagði í stefnuræðu sinni þann 4. október 1995 þegar hann fjallaði um atvinnumál og vék sérstaklega að litlum og meðalstórum fyrirtækjum: "Þegar er hafið átak í eflingu slíkra fyrirtækja, . . . og með gerð tillagna um bætt rekstrarumhverfi, einföldun laga og reglugerða og um skilvirkari samskipti við stjórnvöld".

Í Morgunblaðinu þann 9. desember 1995 er fjallað um blaðamannafund iðnaðarráðherra. Þar segir: "Finnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, vill að farið verði yfir núgildandi lög og reglugerðir til þess að kanna hvort þar sé að finna ákvæði er íþyngi fyrirtækjum að óþörfu. Jafnframt segir hann að stefnt sé að því að yfirfara í framtíðinni nýja löggjöf með sama hætti".

Það er þess vegna ósanngjarnt að segja annað en stjórnvöld sýni málinu áhuga. Hins vegar hafa þau ekki enn kynnt nein áform um hvernig þau hyggist vinna þessu máli framgang.

Hvað þarf að gera?

Það er alls ekki einfalt né fljótlegt að gera nauðsynlegar umbætur til þess að draga úr núverandi reglubyrði fyrirtækja og tryggja að ekki sæki aftur í sama farið. Þess vegna er nauðsynlegt að hefjast handa strax. Rétt er að skipta þessu verkefni í þrjá höfuðþætti.

Umsýsla vegna hins opinbera. Fækka þarf smásköttum og gjöldum, einfalda pappírsvinnu, draga úr og samhæfa skila- og skýrslugerð sem krafist er af atvinnurekstrinum. Það er oft ótrúlega mikil fyrirhöfn og tími sem fer til þess innan fyrirtækja að fullnægja ýmis konar pappírsvinnu í þágu hins opinbera. Dýrmætur tími sem er betur varið til þess að sinna grundvallarþáttum rekstrarins, s.s. þróun, framleiðslu og sölu. Það er í sjálfu sér ekki hvert einstakt atriði sem skiptir máli í þessu sambandi heldur umfangið þegar allt er talið saman. Þess vegna þarf að byrja á því að kortleggja rækilega alla þessa þætti.

Einföldun laga og reglugerða. Þessi þáttur tengist óneitanlega þeim sem nefndur er hér að framan en felur í sér róttækari skoðun laga og reglugerða. Hér þarf að byrja á því að safna saman og flokka gildandi lög og reglur. Fella þarf saman frumgerð ásamt síðari breytingum. Að þessu loknu er hægt að skoða efnislega hvað þar stendur og setja fram skynsamlegar hugmyndir um breytingar og einföldun. Þetta er mjög mikið starf og hér verða öll ráðuneyti að koma að málum ásamt hagsmunaaðilum á hverju sviði. Nútímarekstur og skipulag stjórnsýslunnar er með þeim hætti að lög og reglur sem taka t.d. til iðnfyrirtækis í matvælaiðnaði heyra undir mörg ráðuneyti og stofnanir.

Kerfisbundið mat á áhrifum nýrra laga og reglugerða. Tryggja verður að nýjar reglur skerði alls ekki samkeppnishæfni fyrirtækja að þarflausu. Gera verður ákveðnar gæðakröfur, bæði frá rekstrar- og lögfræðilegum sjónarmiðum, sem allar fyrirhugaðar reglur er varða atvinnulífið verða að uppfylla. Nú er í gildi sú regla að umsögn fjármálaráðuneytis um áhrif á stöðu ríkissjóðs verður að fylgja öllum stjórnarfrumvörpum sem lögð eru fyrir Alþingi. Engu minni nauðsyn er til þess að gera skylt að rannsaka áhrif og kostnaðarauka fyrir atvinnulífið. Höfundar nýrra reglna verða þá að spyrja sig gagnrýninna spurninga þegar í upphafi og gæta þess að reglur séu einfaldar, hagkvæmar og skerði ekki samkeppnishæfni. Gæta verður þess að hafa hagsmunaaðila með í ráðum um þetta mat. Það verður að vera heildstætt, þ.e. hinar nýju reglur verður að vega og meta í samhengi við þær sem fyrir eru. Kerfisbundið mat og fastar vinnureglur ásamt nánu samráði við hagsmunaaðila getur án nokkurs vafa leitt til betri og skilvirkari laga og reglugerða sem íþyngja atvinnurekstrinum ekki umfram nauðsyn.

Höfundur er aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

Jón Steindór Valdimarsson.