"Til að skórnir haldi lagi og útliti er frumskilyrði að sinna vatnsvörn reglulega," segir Jónína Sigurbjörnsdóttir skósmiður hjá Skóvinnustofu Sigurbjörns. "Skórnir eru úðaðir vikulega yfir veturinn eða jafnvel oftar.

Vatnsvörn til að verja

skó vetrarhörkunni

Það er frekar leiðinlegt að ganga í skóm með hvítum saltrákum. Guðbjörg R. Guðmundsdóttir komst að því að vatnsvörn er lykilorðið þegar verja þarf vetrarskó fyrir vondu veðri.

"Til að skórnir haldi lagi og útliti er frumskilyrði að sinna vatnsvörn reglulega," segir Jónína Sigurbjörnsdóttir skósmiður hjá Skóvinnustofu Sigurbjörns. "Skórnir eru úðaðir vikulega yfir veturinn eða jafnvel oftar."

Hvítu saltrákirnar úr skónum sjálfum

Hvítar saltrákir sem koma gjarnan á skó á veturna segir Jónína að séu sjaldnast til komnar vegna salts á götum úti. "Þegar leðrið í skónum er sútað er það sett í saltpækil. Við að fá á sig vatn dregst saltið fram í skónum. Vatnsvörnin kemur í veg fyrir þetta."

­ Hvernig á að þrífa saltið af skónum sé það á annað borð komið í ljós?

"Ekki með kaffi og ekki með vatni. Hvorttveggja kann að skilja eftir sig bletti. Eina ráðið er að nota leðursápu. Margir nota kalt vatn til að þrífa skóna en alla jafna ætti að forðast slíka aðferð. "Leðursápa er best og það þarf ekki mikið af henni."

Heitur áburður smýgur betur inn í skinnið

Þegar búið er að þvo skóna á að bera á þá áburð og bursta síðan. Jónína segist alltaf nota bursta við að bera á skóna því þannig nuddist næringin inn í þá. Þá bendir hún á að best sé að hafa bursta með hrosshárum til verksins og það á líka við burstana sem notaðir eru til að bursta sjálfa skóna með. "Það þarf að bursta skóna hratt til að áburðurinn hitni. Þannig næst fram bestur gljái á skóna og næringin nuddast vel inn."

Leðurfóðraðir skór æskilegastir

Þegar talið berst að gæðum þess skótaus sem Íslendingar ganga í segir Jónína þau afar misjöfn. "Það er hægt að fá mjög vandaða skó og síðan algjört drasl líka. Oftast endurspeglast gæðin í verðinu. Sjálf passa ég alltaf upp á að skórnir mínir séu úr leðri eða rúskinni og síðan er mikilvægt upp á vellíðan að þeir séu leðurfóðraðir. Ef þeir eru fóðraðir með leðri laga skórnir sig betur að eigandanum og fólk á síður á hættu að svitna."

­ Hugsa Íslendingar vel um skóna sína?

"Það er allur gangur á því en þó held ég að þeir séu fleiri sem hirða þá vel en ekki. "Það segir líka ýmislegt um fólk sem er vel klætt og snyrtilegt en í óburstuðum skóm," segir Jónína. "Hugsi fólk vel um skóna sína verður það líka fljótt vart við hvort þeir eru að byrja að gefa sig. Það er bæði auðveldara og ódýrara að fara með skó til skósmiðs þegar þeir eru að byrja að gefa sig en þegar komið er í óefni. Að auki endast skór miklu betur sé hugsað um þá."

Rúskinnssteinn nauðsynlegur

Þegar Jónína er spurð hvernig halda eigi rúskinnsskóm fallegum talar hún um að rúskinnssteinninn sé málið. "Til eru bæði rúskinnsburstar og steinar og með því að bursta skóna reglulega má halda þeim fallegum. Það á við um þessa tegund skótaus eins og leðurskó að vatnsvörn er nauðsynleg." Jónína segir að ef rúskinnsskór séu orðnir snjáðir sé til áburður í úðaformi sem dragi fram gamla litinn í þeim.

­ Hvað með fjallgönguskó og aðra skó sem notaðir eru til útivistar?

"Þá mæli ég oftast með leðurfeiti og bendi sérstaklega á minkaolíuna sem er hentug. Leðurfeiti er ekki notuð á spariskó því hún gefur ekki gljáa. Sé hún notuð þarf ekki að vatnsverja skóna sérstaklega. Leðurfeitin vatnsver."

Mörg pör af sömu tegund

­ Er algengt að fólk kaupi sér eins skó ár eftir ár?

"Það er töluvert um það og jafnvel nokkur pör í einu en bara í mismunandi litum. Það er nú þannig að margir eru með viðkvæma fætur og ef þeir lenda á skóm sem henta nota þeir tækifærið og kaupa nokkur pör."

Hægt að losna við táfýlu

­ Hvað með vandamál eins og illa lyktandi skó?

"Táfýla er viðkvæmnismál en hún hefur í raun ekkert með þrifnað að gera. Gerlar hafa tekið sér bólfestu í skóm og til er sérstakur úði sem drepur þessa gerla og gefur ferska lykt," segir Jónína. "Í þessu sambandi vil ég benda fólki á að forðast að lána skóna sína. Þá geta fótasveppir eða gerlar flotið með þegar skónum er skilað. Ég veit til þess að á stöðum eins og í keilusölum þar sem skór eru lánaðir er úði notaður sem drepur gerlagróður. Auk þess eru fáanlegar ilmkúlur í skó sem margir nota í íþróttaskó sem liggja kannski í tösku milli þess sem þeir eru notaðir."

Gæruleppar hlýja

Þeir sem eru fótkaldir nota gjarnan leppa í skó sína og Jónína segir að hægt sé að fá þá með áli sem einangrar og einnig með gæru. Sumir nota leppa til að minnka skó eða til að mýkra sé að ganga á þeim.

­ En hvað með val á barnaskóm?

"Það á við um þá eins og aðra skó, þeir þurfa að passa vel og vera úr leðri og leðurfóðraðir. Ég bendi hinsvegar foreldrum á að láta skó aldrei ganga milli barna þ.e. mikið notaða gönguskó. Börn ganga misjafnlega til skótau og ef þau eru látin ganga á skóm sem önnur börn hafa átt kann það að skemma göngulagið. Það er allt í lagi að láta spariskó ganga á milli og skó sem ekki eru vel til gengnir."

Gljáburstarnir góðir

­ Hvað með sjálfglansefni sem maður ber bara á og þarf ekki að bursta?

"Ég hef fengið virkilega slæm tilfelli þar sem næstum ógerningur hefur verið að þrífa skóna eftir að slík efni eru notuð. Þetta er eins og að klína einu málningalaginu yfir annað. Það er í lagi af og til að nota slík efni en ekki að staðaldri.

Gljásvamparnir sem margir hafa jafnvel í töskunni eða bílnum og strjúka yfir með til að ná af ryki og fá gljáa eru alls ekki slæmir. Þeir gefa meiri gljáa og skemma ekki skó."

Hvernig á að bursta leðurskó

1. Séu skórnir óhreinir á ekki að þrífa þá með köldu vatni því það getur skilið eftir bletti. Notið leðursápu við þrifin.

2. Notið bursta við að nudda skóáburði inn í leðrið.

3. Burstið skóna með bursta sem gerður er úr hrosshárum. Til að fá fram góðan gljáa þarf áburðurinn að hitna. Það þarf því að bursta hratt yfir.

4. Munið síðan að vatnsverja skóna oft yfir vetrartímann. Þá minnka líkur á að saltrákir komi á þá. Það er útbreiddur misskilningur að saltið sé af götunum. Leðrið er sútað í saltpækli áður en skórnir eru búnir til og ef þeir fá á sig vatn leitar saltið fram.

5. Notið ekki kaffi við að taka úr saltbletti. Kaffið skilur oft eftir sig bletti.

Morgunblaðið/Kristinn JÓNÍNA Sigurbjörnsdóttir skósmiður

MUNURINN er mikill og margir segjast lesa ýmislegt um persónuleikann ef hann er á illa hirtum skóm.

Munið

Reima frá þegar farið er í skó.

Notið skóhorn því ef stigið er á hælkappann sjálfan getur hann brotnað.