"AÐ MÍNU mati er sameining sjúkrahúsanna og háskólasjúkrahús tvær spurningar. Ég hlýt að fagna hugmyndum um eflingu háskólasjúkrahúss en háskólinn hefur átt undir högg að sækja og menntamál yfirleitt, þannig að mér finnst jákvætt að efla háskólann," sagði Jónas Magnússon, prófessor Skurðdeildar Landspítalans. "Sameining spítalanna er náttúrlega jákvæð ef þjónustan batnar.
Jónas Magnússon Sameining ólíkleg en faglega nauðsynleg
"AÐ MÍNU mati er sameining sjúkrahúsanna og háskólasjúkrahús tvær spurningar. Ég hlýt að fagna hugmyndum um eflingu háskólasjúkrahúss en háskólinn hefur átt undir högg að sækja og menntamál yfirleitt, þannig að mér finnst jákvætt að efla háskólann," sagði Jónas Magnússon, prófessor Skurðdeildar Landspítalans.
"Sameining spítalanna er náttúrlega jákvæð ef þjónustan batnar. En mun hún gera það? Ég er a.m.k. viss um að hægt er að bæta þjónustuna í þeim greinum sem eru undir minni stjórn, það er skurðlækningar í víðum skilningi. Ég held að deildirnar yrðu stærri og hver deild fengi fleiri tækifæri til að spreyta sig á sérhæfðum verkefnum.
Að undanförnu hefur þróunin orðið þannig í skurðlækningum að verkefnin verða æ sérhæfðari og hver læknir er með mjög þröngt sérsvið en þannig batnar þjónustan við sjúklingana. Nú er svo komið að við eigum í erfiðleikum með vaktir og mönnun í sérgreinum nema að stóru spítalarnir leggi saman. Það kemur fram í skýrslunni og vitnað er í því sambandi til Kvinnsland Report, að því fleiri verkefni sem sérhver deild fær, því líklegra er að verkin verði vel af hendi leyst. Þetta má kalla "golfsjónarmiðið", þ.e. þeir sem spila mest golf eru bestir í greininni.
Í mínum huga og mínum fögum virðist nánast nauðsyn á faglegri sameiningu til þess að bjóða fólki upp á bestu þjónustu. Ekki má gleyma því að allt snýst þetta um að veita sjúklingum sem besta faglega þjónustu. Og hinn eini sanni sparnaður er að gera hvern hlut vel, ekki ódýrt. Allar rannsóknir á Íslandi í greinum sem eru bútaðar niður í litlar þjónustueiningar verða hvorki fugl né fiskur, betra er að hafa alla þjónustueininguna undir einni stjórn. Hópur fagfólksins verður að vera sameinaður um þjónustuna.
Ef sameina á Landspítalann og Sjúkrahús Reykjavíkur, sem ekki virðist líklegt miðað við undirtektir lækna á Sjúkrahúsi Reykjavíkur, gerist það ekki nema byggður verði nýr spítali sem hýsir þessa starfsemi alla, það er dýrt en verður að gera og ákvörðunin þarf að liggja fyrir sem fyrst."
Jónas Magnússon