BILL Clinton, forseti Bandaríkjanna, hefur hafið baráttu fyrir því, að þingið veiti honum sérstök völd til að gera viðskiptasamninga við önnur ríki en um tveggja áratuga skeið eða fram til 1994 höfðu Bandaríkjaforsetar þessa heimild.
Clinton vill endurheimta sérstök völd til að gera viðskiptasamninga

Verkalýðshreyfingin og

samflokksmenn erfiðastir

Washington. Reuter.

BILL Clinton, forseti Bandaríkjanna, hefur hafið baráttu fyrir því, að þingið veiti honum sérstök völd til að gera viðskiptasamninga við önnur ríki en um tveggja áratuga skeið eða fram til 1994 höfðu Bandaríkjaforsetar þessa heimild. Clinton lagði frumvarpið fram í fyrradag, en alllöng bið hafði orðið á að frumvarpið liti dagsins ljóð vegna þess að innan hans eigin flokks, Demókrataflokksins, er mikill ágreiningur um þetta mál. Andstæðingarnir óttast, að með aukinni alþjóðavæðingu og gagnkvæmum viðskiptasamningum við önnur ríki flytjist störfin úr landi en stuðningsmennirnir fullyrða, að vilji Bandaríkjamenn halda efnahagslegum styrk sínum á næstu öld, verði þeir að leggja áherslu á aukinn útflutning og viðskipti.

Gerald Ford fékk þessi sérstöku völd fyrstur Bandaríkjaforseta um miðjan áttunda áratuginn og síðari forsetar höfðu þau eða fram til 1994 þegar umboðið féll niður. Tilraunir Clintons til að endurheimta þau ári síðar fóru hins vegar út um þúfur vegna pólitískra deilna. Samkvæmt lögunum getur forseti gert viðskiptasamninga við erlend ríki og síðan er það þingsins að samþykkja þá eða fella eins og þeir liggja fyrir. Það hefur ekki heimild til að breyta þeim á neinn hátt.

Miklu skiptir fyrir Clinton að fá þessa heimild til að geta unnið að því að stækka NAFTA, fríverslunarbandalag Bandaríkjanna, Kanada og Mexíkós, og láta það ná til fleiri ríkja í Mið- og Suður-Ameríku. Innan verkalýðshreyfingarinnar, sem annars er vön að styðja demókrata, er hins vegar mikil andstaða við fleiri fríverslunarsamninga en aftur á móti nýtur Clinton stuðnings flestra frammámanna í atvinnulífinu þótt þeir standi yfirleitt með repúblikönum.

Óánægja með NAFTA

Áður en Clinton lagði frumvarpið fram reyndi hann að vinna efasemdamenn innan eigin flokks og verkalýðshreyfinguna á sitt band, aðallega með því að herða á kröfum í væntanlegum samningum við önnur ríki um aðbúnað verkafólks, umhverfis- og mengunarmál.

Samkvæmt nýlegri skoðanakönnun er meirihluti Bandaríkjamanna óánægður með NAFTA eða 43% á móti 28%. 56% Bandaríkjamanna telja, að aukin viðskipti við önnur ríki fækki störfunum heima fyrir en 37% telja, að þeim muni fjölga. Í rannsókn, sem fræðimenn við Kaliforníuháskóla gengust fyrir, kemur fram, að frá stofnun NAFTA 1993 hafi störfunum í raun fjölgað vegna fríverslunarbandalagsins en þó aðeins um 2.990. Í sumum greinum hafi orðið veruleg fjölgun af þessari ástæðu og mikil fækkun í öðrum og sé því síðarnefnda jafnan haldið meira á loft. Niðurstaða rannsóknarinnar var sú, að NAFTA myndi bæta hag Bandaríkjamanna og því meir sem lengra liði frá.

Clinton hefur sagt, að sérstök völd í viðskiptamálum myndu auðvelda sér að rífa niður viðskiptamúra erlendis og sérstaklega á þeim sviðum þar sem Bandaríkjamenn væru sterkastir, í landbúnaði, fjarskiptum, læknistækjum og -búnaði og í umhverfistækni að hugbúnaðarframleiðslu og skemmtanaiðnaðinum ógleymdum.

Stuðningsmenn Clintons og sérstaklega í atvinnulífinu segja, að forsetinn verði að fá þessi völd strax og benda á, að Chile neiti að semja um aðild að NAFTA nema Clinton hafi það umboð, sem til þarf. Ríkisstjórnin þar, og það hefur komið upp áður gagnvart öðrum ríkjum, vill ekki sætta sig við, að hugsanlegum samningum verði breytt að meira eða minna leyti í meðförum Bandaríkjaþings. Bandaríkin eru eina efnahagsveldið í Vesturheimi, sem ekki hefði fríverslunarsamning við Chile.

Rétti tíminn

Augljóslega er nokkuð á brattann að sækja fyrir Clinton í þessu máli en ýmsir stjórnmálaskýrendur telja þó, að honum muni verða að ósk sinni.

"Dæmin sýna, að þegar Bill Clinton ætlar sér að koma einhverjum lögum í gegn, þá tekst honum það," sagði kosningaskýrandinn Mark Mellman og David Drier, fyrrverandi ráðgjafi Clintons, sagði, að nú væri líka rétti tíminn. Atvinnuleysið hefði sjaldan verið minna, tekjur fólks væru að aukast og ekkert benti til, að uppganginum í efnahagslífinu væri að ljúka.

Reuter ÝMSIR frammámenn í atvinnulífinu sýndu Clinton stuðning með því að vera viðstaddir þegar hann hélt ræðu í Hvíta húsinu þar sem hann fór fram á, að þingið veitti honum sérstök völd til að gera viðskiptasamninga við önnur ríki. Hér er hann á tali við Susan Corrales-Diaz, aðalframkvæmdastjóra Systems Integrated.