Leikstjóri: Peter Schröder. Handrit: Peter Bay og Jurgen Kastrup. Kvikmyndatökustjóri: Dirk Bruel. Tónlist: Jan Glæsel. Aðalhlutverk: Puk Scharbau, Waage Sandö, Inge Sofie Skovbo, Sophie Engberg, Birte Neumann, Amalie Dollerup, Kristian Halken. Den Danske Filminstitute. 1995.
Konan sem skrifaði Matador
KVIKMYNDIR
Háskólabíó
BARA STELPA "KUN EN
PIGE" Leikstjóri: Peter Schröder. Handrit: Peter Bay og Jurgen Kastrup. Kvikmyndatökustjóri: Dirk Bruel. Tónlist: Jan Glæsel. Aðalhlutverk: Puk Scharbau, Waage Sandö, Inge Sofie Skovbo, Sophie Engberg, Birte Neumann, Amalie Dollerup, Kristian Halken. Den Danske Filminstitute. 1995. DANSKI rithöfundurinn Lise Nørgaard er með ástsælustu höfundum Danmerkur eftir að hafa samið sjónvarpsþættina Matador um húsbændur og hjú í litlu dönsku bæjarsamfélagi fyrr á öldinni. Þættirnir hafa verið sýndir í ríkissjónvarpinu í tvígang og notið mikilla vinsælda enda eru þeir skemmtilegir með afbrigðum, ljúflega húmorískir á danska vísu, alþýðlegir, vel leiknir og persónugalleríið litríkt. Lise skrifaði endurminningabók sína fyrir nokkrum árum og nefndi Bara stelpu og sagði frá því umhverfi sem hún ólst upp í og var að nokkru leyti kveikjan að Matador. Og hún sagði frá því hversu erfitt það var fyrir konur eins og hana sjálfa að fara út á vinnumarkaðinn þegar hlutverk kynjanna voru skýrt afmörkuð, karlinn var fyrirvinnan og konan átti að sinna heimilinu. Sagan hefur verið kvikmynduð af Peter Schröder og er nú myndin sýnd í Háskólabíói, ótextuð reyndar. Lise kom til landsins og fylgdi myndinni úr hlaði með nokkrum orðum og sagðist heppin að lifa það að sjá líf sitt í kvikmynd. Myndin er næstum þrír tímar að lengd og skiptist nokkurn veginn í tvo hluta, æskuár Lise fyrir hlé og eftir hlé ár hennar í hjónabandi og baráttu við að sinna blaðamennsku og heimilisstörfum á stríðsárunum og eftir stríð. Fyrri hlutinn er miklu mun bitastæðari og þar má sjá fyrirmyndir sumra persónanna í Matador, einkanlega móður Lise, sem minnir talsvert á bankastjórafrúna, barnfóstruna, sem minnir á eldabuskuna hjartagóðu og sitthvað annað. En í myndinni er einnig að finna það gamla, danska smábæjarsamfélag sem Lise fjallar um í Matador. Hún er af sterkefnaðri borgaralegri fjölskyldu komin, sem hefur ráð á þjónustuliði og barnfóstru og umgengst ekki mikið alþýðuna. Og eins og í Matador gerir Lise góðlátlegt grín að snobbinu og hinum borgaralegu gildum, kröfunni um að konan sé á heimilinu og sinni börnum og eiginmanni. Allt er það gert með ljúfum dönskum húmor, sem sýnir sig best í samskiptum Lise við skoplegan föður sinn og móður, er bæði ríghalda í gamlar hefðir. Kannski að forvitnilegastar fyrir okkur Íslendinga séu senur úr húsmæðraskóla í Sórey, n.k. Grautó, þar sem íslensk stúlka verður tákn um þá stöðu sem kvenfólk bjó við á þessum tíma og það líf sem Lise vildi forðast. Íslenska stúlkan er send í skólann til þess að læra húsmóðurstörfin en heima bíður eiginmannsefnið á meðan hún, mjög gegn vilja sínum, menntar sig til þess að sjá um hann einan og sér enga leið útúr ráðahagnum nema þá allra verstu. Svo hún verður enn einn drykkfelldur, sorgmæddur Íslendingur og einstæðingur í Sórey og syngur látlaust mjög viðeigandi stef fyrir stúlku í hennar stöðu: Ein ég sit og sauma, inni í litlu húsi. Er ekki víst að danskir áhorfendur nái kaldhæðninni. Seinni hlutinn er síðri og þá er frásögnin farin að teygjast nokkuð. Leikstjórn Schröders, sem er ágætur fagmaður en lítt skapandi, verður ekki eins markviss. Myndin er um konu sem ekki vill binda sig í klafa fjölskyldu og eiginmanns heldur gera fyrst og fremst það sem hún vill en fær það ekki. Því stofnar hún fjölskyldu og á börn en er aldrei ánægð eða sátt. Þessu eru ekki gerð nema yfirborðsleg skil; ferð hennar til Þýskalands eftir heimsstyrjöldina er t.d. fullkomin tímasóun. Myndin er mestanpart vel leikin og fyrir þá sem höfðu gaman af Matador og bíða þess að þættirnir verði sýndir í þriðja sinn í sjónvarpinu gæti myndin stytt biðina auk þess sem hún er mjög upplýsandi og skemmtileg. Arnaldur Indriðason