Að sögn Þórðar Harðarsonar prófessors og yfirlæknis á lyflækningadeild Landspítalans hefur skýrslan, sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið lét gera og kölluð er manna á meðal VSÓ- skýrslan, verið talsvert rædd meðal kennara í læknadeild Háskóla Íslands. "Ég held að óhætt sé að segja að flestir fagna framtíðarsýninni sem kemur fram í skýrslunni," sagði Þórður.
Þórður Harðarson

Framtíðarsýnin góð, sparnaður tálsýn

Að sögn Þórðar Harðarsonar prófessors og yfirlæknis á lyflækningadeild Landspítalans hefur skýrslan, sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið lét gera og kölluð er manna á meðal VSÓ- skýrslan, verið talsvert rædd meðal kennara í læknadeild Háskóla Íslands.

"Ég held að óhætt sé að segja að flestir fagna framtíðarsýninni sem kemur fram í skýrslunni," sagði Þórður. "Þar er gert ráð fyrir einu öflugu háskólasjúkrahúsi sem hafi aðstöðu á tveimur stóru sjúkrahúsunum en nái að einhverju leyti til hinna fjögurra smærri sem ætlunin er að sameina. Í þessu hlýtur að felast það að ætlunin sé að efla háskólastarfið sem einkum er fólgið í kennslu og rannsóknum. Það er auðveldara að samhæfa kennslustarfið og rannsóknarstarfið með nánara samstarfi eða sameiningu. Það er þó ekki þar með sagt að illa sé staðið að kennslunni núna en ég tel samt sem áður að á þessu sviði sé um nokkur sóknarfæri að ræða.

Það hlýtur að felast í skýrslunni líka að ætlunin sé að efla rannsóknarstarf einnig. Nú þegar er fyrir hendi talsvert öflugt rannsóknarstarf, sérstaklega á Landspítalanum og einnig á nokkrum sviðum á Sjúkrahúsi Reykjavíkur. Þær rannsóknir sem unnið hefur verið að undanfarin ár hafa verið mikilvægar en takmarkast mjög af fjármunum, verkefnin hafa haft í för með sér fremur lítinn kostnað yfirleitt vegna þess að íslenskir rannsóknarsjóðir eru veikburða, það er helst nú á allra síðasta ári að menn hafa getað sótt með krafti inn í Evrópusamstarfið. Ef skýrsluhöfundar eru að leggja til að aukin fjárframlög komi til rannsókna í læknisfræði á sjúkrahúsunum, þá hljótum við að fagna því.

Þriðja höfuðstoð háskólasjúkrahússins er þjónusta við sjúklinga. Það mætti ætla að unnt væri með aukinni samhæfingu í starfi sjúkrahúsanna að fá fram meiri verkaskiptingu og meiri samhæfingu sem leiddi til betri þjónustu við sjúklinga og aðstandendur þeirra. Í heild er sú framtíðarsýn sem birtist í skýrslunni mér að skapi."

Sparnaður byggður á sandi

Þórður sagðist á hinn bóginn hafa ýmislegt við skýrsluna að athuga, eins og flestir sem um hana hefðu fjallað.

"Það sem ég hef einkum við vinnubrögð skýrsluhöfunda að athuga er þrennt. Í fyrsta lagi er sú niðurstaða að unnt sé að spara 520 störf á sjúkrahúsunum byggð á sandi. Hún grundvallast á útreikningum á afköstum sem eru ónothæfir vegna þess t.d. að allar útskriftir sjúklingar eru lagðar að jöfnu sem grunneining. Það gefur augaleið að þjónusta við sjúkling sem þarf á hjartaskurðaðgerð að halda er mjög frábrugðin þjónustu við sjúkling sem þarf á hálskirtlatöku að halda. Í skýrslunni er þetta hins vegar nánast lagt að jöfnu.

Í öðru lagi tel ég óhugsandi að hafa bráðamóttöku sjúkrahúsanna á einum stað, við á Landspítalanum höfum 50 ára reynslu af að hafa ekki bráðamóttöku og það er hjólfar sem við vildum ekki fara aftur ofan í. Það er óframkvæmanlegt að staðsetja alla bráðamóttöku og bráðaþjónustu á öðrum hvorum spítalanna. Hvorugt sjúkrahúsið hefur bolmagn til þess.

Í þriðja lagi kemur ekki fram að því fylgi neinn kostnaður eða aðgerðir að koma á öflugu háskólasjúkrahúsi og það er auðvitað mjög villandi. Það myndi vera dýrt að koma á öflugu háskólasjúkrahúsi, til þess þyrftu að koma aukin framlög til kennslu og rannsókna og vafalaust byggingaframkvæmdir ef háskólasjúkrahúsið á að verða meira ein orðin tóm. Ég held að röksemdir fyrir sameiningu sjúkrahúsanna séu fyrst og fremst faglegar en það sé tálsýn að af því muni hljótast mikill fjárhagslegur sparnaður."

Þórður Harðarson