KYNLÍF og matur er viðfangsefni rithöfundarins Isabel Allende frá Chile. Allende vinnur nú að uppskriftabók, sem ætlað er að örva ástarlíf lesenda hennar. Allende hefur sett saman kynlífsörvandi mataruppskriftir með hjálp 76 ára gamallar móður sinnar og kemur bókin út á Spáni undir heitinu "Afródíta" í október.

Allende

snýr sér að

ástarlyfjum

Washington. Reuter.

KYNLÍF og matur er viðfangsefni rithöfundarins Isabel Allende frá Chile. Allende vinnur nú að uppskriftabók, sem ætlað er að örva ástarlíf lesenda hennar.

Allende hefur sett saman kynlífsörvandi mataruppskriftir með hjálp 76 ára gamallar móður sinnar og kemur bókin út á Spáni undir heitinu "Afródíta" í október.

"Bókin fjallar um kynlíf og mat," sagði Allende á fyrirlestri um "sögur og drauma" í bókasafni Bandaríkjaþings á mánudag. "Þetta er í raun vandamál karlmannsins. Konur hafa engan áhuga á ástarlyfjum, sem eiga uppruna sinn í hinu viðkvæma kynfæri karlmannsins. Því hefur verið gefið nafn verkfæra og vopna og jafnvel verið sagt hafa yfirnáttúrulega krafta, en í raun má koma því fyrir í sardínudós."

Allende, sem skrifaði "Hús andanna", sagði að hún hefði skrifað sig frá sársaukanum vegna dauða dóttur sinnar í síðustu bók sinni, "Paulu", og hefði nú fundið innblástur sinn og skopskyn að nýju.

Hún vinnur um þessar mundir að sögulegri skáldsögu og er að undirbúa handrit, sem byggt er á sögusafninu "Eva Luna", fyrir Sundance-stofnunina.