Fimm barnaleikrit í Möguleikhúsinu MÖGULEIKHÚSIÐ, barnaleikhús við Hlemm, er nú að hefja áttunda leikár sitt. Á verkefnaskrá vetrarins verða að þessu sinni fimm barnaleikrit, auk heimsókna erlendra leikhópa og fleiri viðburða. Leikárið hefst á því að farið verður með leikritið "Ástarsaga úr fjöllunum" í leikferð um Vestfirði.

Fimm barnaleikrit

í Möguleikhúsinu

MÖGULEIKHÚSIÐ, barnaleikhús við Hlemm, er nú að hefja áttunda leikár sitt. Á verkefnaskrá vetrarins verða að þessu sinni fimm barnaleikrit, auk heimsókna erlendra leikhópa og fleiri viðburða.

Leikárið hefst á því að farið verður með leikritið "Ástarsaga úr fjöllunum" í leikferð um Vestfirði. Leikritið er byggt á samnefndri sögu Guðrúnar Helgadóttur og hefur verið sýnt í leikskólum og grunnskólum víða um land í rúm tvö ár. Mun fjöldi sýninga nú vera farinn að nálgast 150.

Síðar í mánuðinum verður farið í leikferð um landið með leikritið "Einstök uppgötvun eða Búkolla í nýjum búningi". Leikritið var frumsýnt á síðasta leikári og var að miklu leyti unnið í spunavinnu leikhópsins. Þar er sagan um Búkollu skoðuð í nokkuð nýju ljósi.

Báðar þessar sýningar verða sýndar áfram í leikskólum og grunnskólum í vetur.

Í byrjun október er von á danska barnaleikhúsinu Det lille turnéteater í heimsókn með sýninguna "Odysseus" eða "Ódysseifur". Þar er sagan um ferðir Ódysseifs flutt á frumlegan hátt af einum leikara og einum tónlistarmanni.

Í tengslum við heimsókn Det lille turnéteater verður haldið barnaleikhúshátíð í Möguleikhúsinu dagana 4.­5. október, þar sem saman verða komnar nokkrar þeirra leiksýninga fyrir börn og unglinga sem í boði eru hjá leikhópum um þessar mundir. Í lok hátíðarinnar verður haldið málþing um menningarstarf fyrir börn.

Í október hefjast að nýju sýningar á "Snillingum í Snotraskógi" eftir Björgvin E. Björgvinsson, sem sýnt var við miklar vinsældir í vor. Það er ævintýraleikrit með söngvum, sem segir frá kynnum skógarmýslu og íkornastráks í Snotraskógi.

Í nóvember er von á norska leikhópnum Tripicchio, Underland og co. með sýninguna "K.M.K.K." eða "Kluss með klær og klesklyper". Þess má geta að leikhópurinn heimsótti Möguleikhúsið fyrir tveimur árum með sýninguna "Með bakpoka og banana", en í þessari nýju sýningu er fjallað um sömu persónur og í þeirri fyrri í nýjum ævintýrum.

Undanfarin ár hefur skapast fyrir því föst hefð hjá Möguleikhúsinu að sýna sérstakar jólasýningar í desember. Jólaleikritið "Hvar er Stekkjarstaur?" verður sýnt í desember, en það var frumsýnt fyrir jólin í fyrra og sýnt rúmlega fjörutíu sinnum.

Í janúar frumsýnir Möguleikhúsið leikgerð eftir hinum kunnu sögum sænska höfundarins Gunillu Bergström um Einar Áskel. Sýningin hefur hlotið nafnið "Góðan dag, Einar Áskell!" og er byggð á bókunum "Flýttu þér Einar Áskell", "Sveiattan Einar Áskell" og "Góða nótt, Einar Áskell". Leikgerðina gerði Pétur Eggerz í samráði við höfundinn.

EINAR Áskell verður í Möguleikhúsinu eftir áramót.