Í UNDIRBÚNINGI er endurbygging flugbrauta og flughlaða á Reykjavíkurflugvelli og standa vonir til þess að framkvæmdir geti hafist á næsta ári. Það skýrist þó ekki endanlega fyrr en Alþingi hefur fjallað um flugmálaáætlun á haustþingi, að sögn Þorgeirs Pálssonar, flugmálastjóra. Gert er ráð fyrir að endurbygging vallarins taki þrjú ár og kosti einn og hálfan milljarð króna.
ÐEndurbygging Reykjavíkurflugvallar í undirbúningi

Vonast til að framkvæmdir hefjist í vor

Í UNDIRBÚNINGI er endurbygging flugbrauta og flughlaða á Reykjavíkurflugvelli og standa vonir til þess að framkvæmdir geti hafist á næsta ári. Það skýrist þó ekki endanlega fyrr en Alþingi hefur fjallað um flugmálaáætlun á haustþingi, að sögn Þorgeirs Pálssonar, flugmálastjóra. Gert er ráð fyrir að endurbygging vallarins taki þrjú ár og kosti einn og hálfan milljarð króna.

Í alþjóðlegri flugkeppni frá Reykjavík til Tyrklands sem hófst í síðustu viku skemmdust skrúfublöð einnar vélarinnar þegar henni var ekið yfir misfellu á flughlaði á Reykjavíkurflugvelli og tafðist brottför vélarinnar á meðan útveguð voru ný skrúfublöð.

Þorgeir sagði aðspurður að samspil margra þátta hefði orsakað skemmdir á skrúfublöðum vélarinnar. Vélinni hefði verið breytt þannig að óvenju lítið bil væri milli skrúfublaða og yfirborðs jarðar. Þá hefðu mikil þrengsli verið á flughlaðinu vegna flugkeppninnar og því erfiðara um vik en venjulega, auk þess sem löngu væri orðið tímabært að endurbyggja flugbrautir og flughlöð flugvallarins.

Undirstaðan ekki nægjanlega góð

"Það er velþekkt að undirstaðan undir bæði flughlöðum og flugbrautum á Reykjavíkurflugvelli er ekki nægjanlega góð, enda orðið langt síðan völlurinn var byggður," sagði Þorgeir.

Hann bætti því við að hann vonaðist til að hægt yrði að hefjast handa um fyrsta áfanga endurbyggingar vallarins á næsta ári. Það hefði lengi staðið til, en eftir væri hins vegar að fjalla um flugmálaáætlun á þingi á haustmánuðum og skipulagsnefnd borgarinnar væri að fjalla um deiliskipulag flugvallarins. "Það er auðvitað ekki fyrr en þessari umfjöllun er lokið sem við getum sagt með vissu hver niðurstaðan verður," sagði Þorgeir ennfremur.