MÉR finnst orðið erfitt að sitja þegjandi undir vinnubrögðum íslenskra ráðamanna sem beinast að ákveðnum þjóðfélagshópum. Sem dæmi nefni ég þá þjösnalegu ákvörðun ráðamanna ríkisfjölmiðlanna að innheimta greiðslur af eldri borgurum, þrjá mánuði aftur í tímann, án þess að hlutaðeigendur fengju nokkuð um það að vita áður. Slík vinnubrögð eru illþolandi og ósæmandi valdsmönnum.
Ósvífnar inn-

heimtuaðferðir

Það er ekkert grænt lengur á framsóknarbúinu, að mati Lárusar Hermannssonar , nema hugsunarhátturinn.

MÉR finnst orðið erfitt að sitja þegjandi undir vinnubrögðum íslenskra ráðamanna sem beinast að ákveðnum þjóðfélagshópum. Sem dæmi nefni ég þá þjösnalegu ákvörðun ráðamanna ríkisfjölmiðlanna að innheimta greiðslur af eldri borgurum, þrjá mánuði aftur í tímann, án þess að hlutaðeigendur fengju nokkuð um það að vita áður. Slík vinnubrögð eru illþolandi og ósæmandi valdsmönnum. Umhugsunarefni er að þetta "virtist" koma alþingismönnum á óvart. Kannski er ég elliær að ætla að hér gildi hið fornkveðna; ­ að eftir höfðinu dansi limirnir. Ekki virðist mér frekt að ætla þingmönnum þjóðarinnar að hafa ljáð samþykki sitt, áður en fótgönguliðið þrammaði af stað.

Ef til vill helgast þessi innheimtugleði Ríkissjónvarpsins af því að stofnunin þurfi aukið fjármagn til kaupa á útlendum óþverramyndum; morð og uppáferðir á víxl, dag eftir dag.

Er þá upplagt að krefja helst greiðslu þá hópa sem frábiðja sér ósómann. En lágkúra ER lágkúra, þótt hún njóti vinsælda, og þeir sem bera ábyrgð á slíku efni á besta útsendingartíma ættu að ráða sig sem bíóstjóra.

Þar ræður hver sínum kaupum.

Nú man ég ekki betur en forsætisráðherra birtist þegar álagan varð heyrinkunnug og boðaði "bót og betrun", meðan hjálparkokkur matreiddi eftir kúnstarinnar reglum þá niðurstöðu að eldri borgarar hefðu þegar fengið sinn skerf: Það skiljist svo: Þið afsalið ykkur bótum ­ en haldið eftir betrunarvistinni.

En ólánið er aldrei einsamalt á ferð hjá íhaldinu, því nú taldi Guðmundur Hallvarðsson brýna nauðsyn bera til að stofna eldriborgaraflokk innan Sjálfstæðisflokksins. Ég spyr í einfeldni minni: Er ekki Sjálfstæðisflokkurinn búinn að merkja sig í gegnum tíðina sem flokk allra stétta og allra hópa? Er hann það ekki lengur?

Vert er að benda Guðmundi Hallvarðssyni á að starfandi eru hér í borg samtök eldri borgara og er áhrifamaður innan Sjálfstæðisflokksins, mætur maður, formaður þess félagsskapar.

Hefur Guðmundur Hallvarðsson heyrt Páls Gíslasonar, læknis, getið? Ef Guðmundur vill efla hag eldri borgara er áreiðanlega rými þar fyrir hann og hugmyndir hans . . . og ekki krafist flokksskírteinis við inngöngu. Það er óþurftarverk að reka fleyg í félagasamtök, sem fyrir eru og starfað hafa um árabil, hér í bæ og víðar á landinu.

Hvaða pólitík rær undir? Atkvæðaveiðar? Er verið að þvo hendur sínar af óréttlátum álögum?

Vel á minnst. Nú stendur til að breyta kosningaskipulagi. Ekki skal ég leggja dóm á það hvort breytingar auki lýðræði eða bara aki því til. Fulltrúalýðræði er svo sleipt að að það má eins kallast fógetaréttur, því lögfræðingar hafa öll lyklavöld.

En grun hef ég um að dreifbýli ­ og Framsókn ­ beri skarðan hlut frá borði. Fáeinir framsóknarmenn munu hverfa af vettvangi.

Spái ég. Sú var tíð að ég hefði séð eftir þeim, þegar flest í verkum þeirra benti til félagshyggju.

Nú er stefnt inn í nýja öld og fyrirmyndin sýnist sú átjánda þegar bóndinn lauk ævinni niðursetningur á eigin bæ, því afkomendur áttu ekki kost á öðru búi.

Það er ekkert lengur grænt á framsóknarbúinu nema hugsunarhátturinn.

Höfundur er eldri borgari.

Lárus Hermannsson