Sársauki ástar og dulmagn bernsku MÖRG íslensk skáldverk koma út hjá Forlaginu fyrir jólin. Flest eru eftir kunna höfunda. Eftir Sigurð Pálsson kemur út ný ljóðabók: Ljóðlínuspil. Alveg nóg er skáldsaga eftir Þórunni Valdimarsdóttur.

Sársauki ástar og

dulmagn bernsku

MÖRG íslensk skáldverk koma út hjá Forlaginu fyrir jólin. Flest eru eftir kunna höfunda.

Eftir Sigurð Pálsson kemur út ný ljóðabók: Ljóðlínuspil. Alveg nóg er skáldsaga eftir Þórunni Valdimarsdóttur. Þetta er að sögn hispurslaus saga um unga nútímakonu sem brýtur af sér gömul boð og bönn og kýs frelsið, ástar- og spennusaga. Rúnar Helgi Vignisson sendir frá sér skáldsöguna Ástfóstur.

Síðasta ljóðabók Sigfúsar heitins Daðasonar nefnist Og hugleiða steina. Hann var langt kominn með að ganga frá bókinni þegar hann féll frá. Þorsteinn Þorsteinsson gengur endanlega frá bókinni til prentunar. Arngunnur Ýr Gylfadóttir gerir teikningar. Enn fremur kemur út geisladiskur með flutningi Sigfúsar á eigin ljóðum. Upptökurnar eru úr fórum Ríkisútvarps-Sjónvarps.

Úlfabros er fyrsta ljóðabók Önnu Valdimarsdóttur sálfræðings. Ljóðin lýsa reynslu konu vegna svika í ástum, vonbrigðum, reiði og djúpstæðum sársauka en ekki síður baráttu, sátt og loks sigurgöngu nýrrar ástar. Dagbók Ertu er fyrsta prósaverk Diddu en Forlagið hefur áður gefið út eftir hana ljóðabókina Lastafans og lausar skrúfur.

Systkinin Sigrún og Þórarinn Eldjárn eru höfundar barnaljóðabókarinnar Halastjörnu. Aðrar barnabækur Forlagsins eru Kynlegur kvistur á grænni grein eftir Sigrúnu Eldjárn, Skessan eftir Guðrúnu Hannesdóttur og Bréfið til Jóa eftir Rögnvald Finnbogason og Tryggva Ólafsson.

Faðir og móðir og dulmagn bernskunnar nefnast bernskuminningar Guðbergs Bergssonar færðar í skáldskaparbúning. Bernskan er séð með augum fullorðins manns sem reynir að sjá sjálfan sig gegnum foreldrana og umhverfið. Leikföng leiðans eftir Guðberg koma út í endurskoðaðri kilju.

Páll Pálsson ritar Minningar Kristins Hallssonar og út kemur ritgerðasafn eftir Svövu Jakobsdóttur.

Kristján Gíslason er höfundur bókarinnar Ofurlaxar og aðrir minni sem er bók um veiðiskap. Bókin Íslenskir hvalir verður gefin út á íslensku, ensku og þýsku.



Guðbergur Bergsson

Sigfús Daðason