MOGENS Lykketoft fjármálaráðherra er stoltur fyrir hönd dönsku stjórnarinnar, þar sem gert er ráð fyrir 7 milljarða tekjuafgangi á fjárlögum. Stjórnarandstaðan er hins vegar ekki jafnhrifin og bendir á að ef ekki kæmu til sölutekjur væri ekki um neinn afgang að ræða.
Danska ríkisstjórnin sér fram á betri tíð í ríkisfjármálum

Tekjuafgangur vegna skynditekna Langtímauppstokkun félagskerfisins vantar Kaupmannahöfn. Morgunblaðið. MOGENS Lykketoft fjármálaráðherra er stoltur fyrir hönd dönsku stjórnarinnar, þar sem gert er ráð fyrir 7 milljarða tekjuafgangi á fjárlögum. Stjórnarandstaðan er hins vegar ekki jafnhrifin og bendir á að ef ekki kæmu til sölutekjur væri ekki um neinn afgang að ræða. Eftir fjögurra ára samfleytt góðæri ætti að vera hægt að spara meira og nýta eigi góðu árin til að leggja til hliðar til mögru áranna. Hagfræðingar benda á að niðurskurður sé lítill, eyðslan við efri mörkin og ekki sé gerð nein tilraun til að taka félagsbótakerfinu nauðsynlegt tak. Stærstu viðbótina á fjárlögum eiga bæjarfélögin að fá, samtals 1.700 milljarða danskra króna. Þessi viðbót kemur þó bæjarfélögin fari næstum öll fram úr sínum áætlunum, en á móti hugleiðir fjármálaráðuneytið nú að herða eftirlit með bæjarfélögunum. Í haust eru hins vegar bæjarstjórnarkosningar og því tæplega í augsýn að neitt verði gert í þessum málum fyrr en næsta ár. Framlög verða m.a. einnig aukin til þróunaraðstoðar, rannsókna og upplýsingatækni og menntunar, auk fleiri þátta. Samtals nemur þetta 3,5 milljörðum. Niðurskurðurinn bitnar á atvinnurekendum, sem eiga að taka á sig aukinn hlut í sjúkrabótum, ráðuneytunum, styrkjum til umhverfis- og orkuverkefna, barnabótum og gert er ráð fyrir sparnaði félagsbóta vegna minnkandi þarfar. Almennur niðurskurður barnabóta er ekki á dagskrá, heldur að barnabætur lækki ef börnin eru mjög mörg. Hér er verið að bregðast við máli, sem kom upp nýlega, þar sem innflytjandi með ellefu börn og óljós tengsl við tvær konur fékk 600 þúsund á mánuði, rúmar 6 milljónir króna, í félagsbætur. Alls nemur sparnaðurinn 4 milljörðum, svo sparnaðurinn er samtals 500 milljónir. Það vekur óánægju í atvinnulífinu að lögð verða á gjöld upp á 800 milljónir. Lélegur afrakstur góðæris Þó stjórnin hafi snúið frá tæplega 60 milljarða halla 1993 í tekjuafgang nú er bent á að hér hafi góðæri hjálpað til með auknum útflutningi og auknum byggingarframkvæmdum, sem danskt efnahagslíf er mjög háð. Enn vanti uppstokkun sem bæti til lengdar stöðuna. En atvinnuleysið hefur líka minnkað frá 1993, þegar það var rúm 12 prósent. Í ár er búist við að það verði tæp átta prósent og rúm sjö prósent á næsta ári. Bæði í ár og á næsta ári er búist við þriggja prósenta hagvexti. Bæði Íhaldsflokkurinn og Venstre eru óánægðir með að auknar byrðar skuli lagðar á atvinnurekendur og Anders Fogh Rasmussen formælandi Venstre segir það slaka frammistöðu að ekki takist að koma saman fjárlögum með alvöru hagnaði eftir fjögur góð ár. Þar með er átt við að það eru skynditekjur eins og hagnaður af sölu hluta í ríkisfyrirtækjum, sem breyta mínus í plús. Stjórnin hyggst selja helming 52 prósenta hluta síns í Tele Danmark, en útilokar ekki að meira verði selt síðar. Sölutekjurnar eru áætlaðar 15 milljarðar. Allt of lítið aðhald

Frá hagfræðingum kveður við einróma gagnrýni um alltof lítið aðhald. Nina Smith, prófessor við Verslunarháskólann í Árósum og ein af þremur svokölluðum efnahagsvitringum, segir að ef ávinningur eigi að vera af átaki á vinnumarkaðnum, svo sem endurmenntun þeirra sem lengi hafi verið atvinnulausir og aðhald í bótum til atvinnulausra, sé mikilvægt að ný atvinnutækifæri verði til og því sé mikilvægt að styðja við góðærið, en um leið þurfi að gæta þess að þenslan verði ekki of mikil. Það valdi hins vegar áhyggjum að enn vanti heildaruppstokkun félagsbótakerfisins, því aðeins slík uppstokkun geti til lengri tíma litið bætt stöðu ríkissjóðs svo um muni. Danska stjórnin getur þó glatt sig við að í öðrum Evrópulöndum er æ oftar nefnt að Danmörk sé eitt fárra landa, sem takist að skapa atvinnutækifæri. Jafnvel þó þar séu ákvæði um lágmarkslaun og ýmsar aðrar kvaðir, sé vinnumarkaðurinn sveigjanlegur. Nýlega sagði bandaríski hagfræðingurinn Paul Samuelson í viðtali við ítalskt blað að fyrir Evrópulönd væri Danmörk fremur dæmi til eftirbreytni en Bandaríkin, því Danmörku hefði tekist að skapa kapítalisma með mannlegum brag.