Kynþáttahyggja er hugtak sem kemur oft fyrir í opinberri umræðu, einkum í tengslum við innflytjendamál, en fullyrða má, að notkun þess hafi oft verið ómarkviss. Hvað er kynþáttahyggja nákvæmlega? Jóhann M. Hauksson stjórnmálafræðingur hefur rannsakað fyrirbærið ýtarlega.
Hvað er kynþáttahyggja? Veigamikill þáttur

í rannsókn

alþjóðasamskipta

Kynþáttahyggja er hugtak sem kemur oft fyrir í opinberri umræðu, einkum í tengslum við innflytjendamál, en fullyrða má, að notkun þess hafi oft verið ómarkviss. Hvað er kynþáttahyggja nákvæmlega? Jóhann M. Hauksson stjórnmálafræðingur hefur rannsakað fyrirbærið ýtarlega. Hann heldur framsögu um þetta efni á opnum hádegisverðarfundi sem haldinn verður á vegum Félags stjórnmálafræðinga á morgun, föstudag, á efri hæð veitingastaðarins Lækjarbrekku.

Jóhann var fyrst beðinn að útskýra í stuttu máli, hvað átt sé við með orðinu "kynþáttahyggja".

"Kynþáttahyggja er hugmynd sem byggist annars vegar á því að maðurinn er greindur í nokkra kynþætti eftir útliti og hins vegar að hverjum kynþætti séu eignaðir ákveðnir huglægir eiginleikar. Í henni felst ekki að tekið sé eftir mismunandi hörundslit fólks ­ svo sem að einn sé "gulur" og annar "svartur" ­ heldur í því að ályktað sé um andlegt atgervi fólks með tilliti til útlitseinkenna. Kynþáttahyggja þarf ekki að birtast sem neikvætt afl, en í raun tengjast fordómar henni sterkum böndum."

­ Geturðu nefnt dæmi um birtingarform kynþáttahyggju?

"Nefna má fjöldamorð hútúa á tútsum í Rúanda fyrir tveimur árum sem eitt öfgadæmi. Annað saklausara dæmi felst í því að í Bandaríkjunum er sú skoðun útbreidd að svertingjar standi öðrum að baki hvað vitsmuni snertir. Hægt væri að nefna mýmörg önnur dæmi, en þessi tvö ættu að gefa nokkuð góða hugmynd um hvað átt er við."

­ Hvað varð kveikjan að því að þú tókst þér fyrir hendur að skoða kynþáttahyggju svo nákvæmlega?

"Það er ekki hægt að rannsaka stjórnmál, einkum alþjóðasamskipti, án þess að gera sér grein fyrir mikilvægi huglægra og tilfinningalegra þátta sem stjórna gerðum manna. Meðal slíkra þátta er kynþáttahyggja veigamikil. Annar slíkur þáttur, ekki síður veigamikill, er þjóðernishyggja, en um það efni fjallaði ég í BA-ritgerð minni.

Eftir að hafa búið í París og kynnzt þar samlífi fólks af ólíkum uppruna tók ég til við að skrifa bók um kynþáttahyggju, sem kemur út hér á landi í vetur."

­ Þú býrð í Frakklandi. Innflytjendamál eru mjög ofarlega á baugi franskra stjórnmála um þessar mundir. Hefur umræðan um þau og uppgangur Þjóðfylkingar Jean-Marie Le Pens ekki haft áhrif á áhuga þinn á efninu?

"Hreinskilnislega, nei. Le Pen er áreiðanlega rasisti, en hans málflutningur er mjög lítið á þeim nótunum. Það stafar fyrst og fremst af því að slíkt tal á opinberum vettvangi er bannað samkvæmt lögum í Frakklandi."

­ Megna slík lög að þínu mati að hindra viðgang kynþáttahyggju?

"Nei, það held ég ekki. Nú ríkja talsverðir fordómar gagvart múslimum og svertingjum í Frakklandi og stafar það að einhverju leyti af því að þeir eru fátækari og menntunarsnauðari og leiðast frekar út í glæpi í þessu samfélagi þar sem erfiðara er fyrir þá að vinna fyrir sér á heiðarlegan hátt. Lög sem takmarka tjáningarfrelsi fólks í þessu samhengi skila litlu að mínu mati. Það sem telja má varhugavert við slík lög er að þau koma í veg fyrir að heilbrigð umræða um kynþáttahyggju geti átt sér stað.

Réttlæting lagasetningar af þessu tagi er hins vegar, að umræða um kynþætti og útlit einstaklinga geti leitt til vaxandi kynþáttahyggju. Þessu til stuðnings má nefna að í Bandaríkjunum, þar sem slík lög þekkjast ekki, eru kynþættir óhemju mikilvægir í hugum fólks. Hluti ástæðunnar fyrir því er augljóslega sú, að sífellt er vísað til hörundslitar einstaklinga í öllu mögulegu samhengi."

­ Álítur þú að kynþáttahyggja hér á landi sé mikil?

"Nei, það er hún ekki, hér þrífst hún vel í ákveðnum hópum, en til að mynda hygg ég að almennt séu litlir fordómar gagnvart innflytjendum og fósturbörnum af öðrum kynþáttum, sem hér búa. Bæði er að hér er sómafólk á ferð, sem vel hefur aðlagazt samfélaginu og einnig er lítið um atvinnuleysi og önnur þjóðfélagsmein, sem gjarnan veldur því að kynþáttahyggja sprettur upp. Ég efa á hinn bóginn ekki, að kynþáttahyggja gæti orðið illvíg við "réttar" aðstæður. Íslendingar eru engir englar, frekar en aðrir."

­ En er ekki ákveðinn munur á andúð sem brýst út gegn útlendingum og kynþáttahyggju sem slíkri?

"Kynþáttahyggja brýst oft út með því móti að útlendingar verði fyrir barðinu á fordómum en hins vegar eru tengslin milli fyrirbæranna ekki sjálfvirk, vegna þess að andúð á ókunnugum ( xenófóbía ) getur beinzt að einstaklingum af sama kynþætti. Þetta eru tvö aðskilin fyrirbæri, þó þau séu nátengd í veruleikanum."

Jóhann M. Hauksson er fæddur í ágúst 1966 í Reykjavík. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Kópavogi 1988 og BA-prófi í stjórnmálafræði og heimspeki frá Háskóla Íslands 1993. Þá tók hann meistaragráðu í alþjóðasamskiptum frá Institut d'Etudes Politiques de Paris ( Science Po ) 1995. Nú vinnur hann að doktorsritgerð við Sorbonne- háskóla í sömu borg.

Eiginkona Jóhanns er Nathalie Hauksson-Tresch, sem kennir lögfræði við Strassborgarháskóla.



Kynþáttahyggja ekki mikil á Íslandi



Jóhann M. Hauksson