Þegar til átti að taka var orðið of seint að eyða búinu, enda er nú mikil umferð geitunga í Grænagarði þegar vel viðrar, en víðar eru þeir á ferð en hjá mér. Þegar klukkan var hálfellefu einn morguninn var ég búin að "lakka" fjóra geitunga sem komust inn til mín, en hárlakk er hið besta vopn gegn þeim.
Matur og matgerðÝmislegt gott úr gulrótum
Hinir fjölmörgu geitungar sem komu úr geitungabúi í garði Kristínar Gestsdóttur flugu listflug í gulrótarbeðinu einn góðvirðisdag í síðustu viku. Þegar til átti að taka var orðið of seint að eyða búinu, enda er nú mikil umferð geitunga í Grænagarði þegar vel viðrar, en víðar eru þeir á ferð en hjá mér. Þegar klukkan var hálfellefu einn morguninn var ég búin að "lakka" fjóra geitunga sem komust inn til mín, en hárlakk er hið besta vopn gegn þeim. Skömmu síðar þegar ég opnaði frystikistuna laumaði einn þeirra sér ofan í hana og var ég fljót að skella lokinu aftur. Þrátt fyrir geitunga í gulrótarbeðinu læt ég mig hafa það að ná mér í nýjar gulrætur daglega til að naga en þær eru mjög ljúffengar mátulega stórar og nýuppteknar. Nú líður samt að því að maður hættir að taka þær upp jafnóðum heldur verður að gera einhverjar ráðstafanir til að geyma þær. Ég geymi eitthvað af þeim í þurrum sandi í lokuðum kassa úti en kippi þeim inn þegar frystir. Kassann má geyma á svölum. Oft er hlýtt fram eftir hausti og er þetta þá gott ráð. Gulræturnar geymast mun betur svona en í kæliskáp. Í frysti geymast þær vel en þær borðar maður ekki hráar. Þegar setja á gulrætur í frysti þarf að sjóða aðeins upp á þeim til að varðveita vítamínin, en efnakljúfar eyða þeim fljótlega, líka í frystinum. Með suðu gerum við efnakljúfana óvirka. Setjið gulræturnar í sjóðandi vatn og sjóðið aðeins upp á þeim. Snöggkælið síðan í rennandi köldu vatni. Ótal margt gott má búa til úr gulrótum, hér er boðið upp á gulrótarköku og eins konar kjötpönnuköku með gulrótum.
Gulrótarkaka með rifnu súkkulaði
4 egg
150 g sykur
1 dl brætt smjör (ekki smjörlíki)
dl matarolía
200 g hveiti
1 tsk. lyftiduft
200 g gulrætur
100 g suðusúkkulaði
dl möndluflögur ofan á
1. Hitið bakaraofninn í 190 C, blástursofn í 170 C.
2. Þeytið egg og sykur vel saman. Bræðið smjörið, kælið örlítið og setjið saman við matarolíuna. Hrærið lauslega út í.
3. Blandið saman hveiti og lyftidufti og hrærið út í með sleif eða sleikju, alls ekki í hrærivél.
4. Þvoið gulræturnar og þerrið (ísl. nýjar gulrætur þarf hvorki að skafa né flysja, mest vítamín er við hýðið). Rífið frekar fínt. Rífið súkkulaðið líka frekar fínt. Setjið út í deigið og hrærið saman með sleikju eða sleif.
5. Smyrjið springform, um 25 sm í þvermál, setjið deigið í formið, stráið möndluflögum yfir.
6. Bakið neðarlega í ofninum í um 30 mínútur.
Athugið: Bera má ís með.
Kjötpönnukaka með gulrótum
Um 200 g jafnar meðalstórar gulrætur
2 msk. smjör
2 msk. matarolía
600 g nautahakk
2 tsk. salt
tsk. pipar
1 stór hvítlauksgeiri eða 2 minni
1 dl brauðrasp
2 egg
1. Þvoið gulræturnar, kljúfið langsum. Setjið matarolíu og smjör á pönnu. Raðið gulrótarhelmingunum í stjörnu ofan á pönnuna, skurðflötur snúi niður. Hafið meðalhita og sjóðið þetta í feitinni í 5-7 mínútur.
2. Hrærið brauðrasp saman við eggin, látið standa smástund.
3. Setjið hakkið í skál ásamt salti, pipar, mörðum hvítlauksgeira og eggja/raspi. Hrærið vel saman.
4. Takið hakkið úr skálinni, þrýstið jafnt ofan á disk sem er svipuð að stærð og pannan, hvolfið diskinum með hakkinu síðan ofan á gulræturnar, þrýtið hakkinu svolítið niður. Fjarlægið diskinn. Hafið lágan hita og leggið lok á pönnuna. Látið steikjast í 10 mínútur.
5. Hallið pönnunni og látið soðið renna af henni í skál. Rennið kjötkökunni síðan yfir á disk, hvolfið pönnunni yfir hann og hvolfið öllu saman þannig að kjötkakan fari á hvolf ofan á pönnuna. Gulrætur snúi nú upp. Látið standa á heitri hellunni í 5 mínútur. Berið fram á pönnunni eða setjið á fat. Hafið soðið í skálinni með ásamt soðnum kartöflum og soðnu grænmeti.