Framleiðendur: Robert Evans og Alan Ladd Jr. Leikstjóri: Simon Wincer. Handritshöfundur: Jeffrey Boam. Kvikmyndataka: David Burr. Tónlist: David Newman. Aðalhlutverk: Billy Zane, Kristy Swanson, Catherine Zeta Jones, James Remar, Treat Williams, Patrick McGoohan. 97 mín. Bandaríkin. Cic myndbönd 1997. Útgáfudagur: 10. september. Myndin er bönnuð börnum innan 12 ára.
Skemmtilega hallærisleg ofurhetja
Skuggi
(The Phantom)
ÆvintýramyndFramleiðendur: Robert Evans og Alan Ladd Jr. Leikstjóri: Simon Wincer. Handritshöfundur: Jeffrey Boam. Kvikmyndataka: David Burr. Tónlist: David Newman. Aðalhlutverk: Billy Zane, Kristy Swanson, Catherine Zeta Jones, James Remar, Treat Williams, Patrick McGoohan. 97 mín. Bandaríkin. Cic myndbönd 1997. Útgáfudagur: 10. september. Myndin er bönnuð börnum innan 12 ára. Á fimmta og sjötta áratugnum voru ofurhetjusyrpur mjög vinsælar í kvikmyndahúsum og sjón varpi. Superman, Flash Gordon, Shazam, Batman og aðrir stæltir bronsguðir hlupu um í þröngum náttfatakenndum ofurhetjubúningum og börðu á illþýði heimsins. Það voru litlar sem engar tæknibrellur notaðar í myndunum og sviðsmyndin var oftast mjög klunnaleg. Þessar hallærislegu ofurhetjumyndir höfðu mjög sakleysislegan sjarma, sem er erfitt að finna í morðóðum ofurhetjum nútímans. Skuggi er afturhvarf til hinna gömlu gilda og er mjög meðvituð um hvað hún er og hvað hún er að gera. Myndin er byggð á teiknimyndasyrpu sem Vikan birti í mörg ár og þar börðust Skuggi og gæludýrin hans við alls kyns afbrotamenn. Skuggi er ekki góð mynd en hún hefur þetta skemmtilega hallærislega afþreyingargildi, sem er vandfundið í harðhausamyndum dagsins í dag. Sviðsmyndin er illa gerð, þá sérstaklega hellir Skugga og brellurnar eru langt fyrir neðan meðallag. Leikurinn er skemmtilega ýktur og þá er Treat Williams einstaklega góður í hlutverki illmennisins. Billy Zane er skondinn í búningi Skugga og tekur hlutverk sitt mátulega alvarlega. Einnig er mjög gaman að sjá "Prisoner" leikarann Patrick McGoohan í hlutverki föður Skugga. Yngstu áhorfendurnir ættu að hafa nokkuð gaman af myndinni og þeir eldri gætu heillast af hallærislegum sjarma hennar eins og ég gerði. Ottó Geir Borg