"Íslensku spítalarnir eru minni en háskólaspítalar í öðrum löndum. Í nágrannalöndum okkar leggja menn mikla áherslu á að skipuleggja og efla þessar stofnanir, t.d. í Þrándheimi, þar sem er háskólaspítali sem þjónar 250 þúsund manns, svo og í Ósló og Kaupmannahöfn.
Einar Stefánsson

Skýrslan mótar rétta meginstefnu

"Íslensku spítalarnir eru minni en háskólaspítalar í öðrum löndum. Í nágrannalöndum okkar leggja menn mikla áherslu á að skipuleggja og efla þessar stofnanir, t.d. í Þrándheimi, þar sem er háskólaspítali sem þjónar 250 þúsund manns, svo og í Ósló og Kaupmannahöfn. Þar skilja menn nauðsyn öflugs háskólasjúkrahúss sem er grundvöllur heilbrigðisþjónustu hvers lands og endurnýjar í sífellu þann þekkingargrunn sem öll heilbrigðisþjónusta byggist á," sagði Einar Stefánsson prófessor og forseti læknadeildar.

"Einstakar starfseiningar spítalanna hér þurfa að stækka og eflast til þess að geta sinnt hlutverki sínu í þjónustu, öflun og miðlun þekkingar. Stærri einingar leyfa meiri sérhæfingu. Þetta er að mörgu leyti sambærilegt við sjávarútvegsfyrirtækin sem hafa verið að sameinast, bæði til þess að styrkja fyrirtækin almennt og leyfa sérhæfðan og samfelldan rekstur einstakra eininga, t.d. að setja upp heilstæða rekstrareiningu í karfa, aðra í uppsjávarfiskum o.s.frv. Sameining hefur farið fram í öldrunarþjónustu sem hefur verið búin aðstaða að mestu leyti á Landakoti. Þar áætla menn að spara í rekstrarkostnaði 150 millj. kr. á ári. Þess utan hafa þeir aukið sérhæfingu t.d. komið á nýrri deild fyrir heilabilaða einstaklinga og móttöku fyrir slíka sjúklinga. Áður urðu allir læknar og hjúkrunarfræðingar að vera "allir í öllu", en núna er möguleg sérhæfing sem bætir þjónustu og eflir þróun, gerir þeim til að mynda betur mögulegt að fylgjast með hvað er að gerast á tilteknu sviði, t.d. í heilabilun. Þeir gátu líka sameinast um eitt bókasafn í stað tveggja, og eru fræðslu- og þróunarmiðstöð fyrir öldrunarþjónustu á landinu en fyrir sameiningu hafði hvorug einingin burði til að standa undir slíkri sérhæfingu, heldur urðu þær að dreifa kröftunum.

Tvískipt þjónusta veikir báðar einingarnar, ekki er hægt að skapa þá sérhæfingu sem eðlileg er talin í nágrannalöndum. Gæði þjónustu, þróun, rannsóknir og kennsla verða veikari en ella. Flutningur sjúklinga milli spítala eftir vaktdögum er óhagkvæmur og stundum hættulegur. Möguleikar á skipulögðum viðbragðshópum, t.d. stórslysateymi, heilabóðfallsteymi o.fl. verða minni en ella."

Meginstefnan rétt

Einar sagðist líta svo á að áfangaskýrsla VSÓ mótaði rétta meginstefnu, þá að stefna að því að koma á fullkomnum háskólaspítala á Íslandi. "Um leið ættu menn að gera sér grein fyrir að markmið slíkrar stofnunar er fyrst og fremst að efla og viðhalda gæðum heilbrigðisþjónustu og skapa henni þann þekkingargrundvöll sem hún þarf á hverjum tíma. Hugmyndir um háskólaspítala má hins vegar ekki nota sem skálkaskjól fyrir enn frekari niðurskurði á fjárframlögum til heilbrigðismála."

Einar Stefánsson