NÚ þegar haustar að er tilvalið að líta á hverju kvikmyndahús borgarinnar ætla að gleðja bíógesti með fram að jólum. Sambíóin bjóða að vanda upp á fjölbreytt úrval mynda. Síðustu helgi var frumsýnd hjá þeim spennumyndin "Breakdown" með Kurt Russell í aðalhlutverki en næsta mynd á dagskrá er geimdramað "Contact".

Væntanlegar kvikmyndir í Sambíóin

Herkúles og

James Bond

mæta til leiks

NÚ þegar haustar að er tilvalið að líta á hverju kvikmyndahús borgarinnar ætla að gleðja bíógesti með fram að jólum. Sambíóin bjóða að vanda upp á fjölbreytt úrval mynda. Síðustu helgi var frumsýnd hjá þeim spennumyndin "Breakdown" með Kurt Russell í aðalhlutverki en næsta mynd á dagskrá er geimdramað "Contact" .

"Contact" er byggð á metsölubók vísindamannsins Carl Sagan og fjallar um fyrstu samskipti mannkynsins við vitsmunalegar verur frá öðrum hnetti. Óskarsverðlaunahafinn Jodie Foster leikur vísindamanninn Ellie Arroway sem þráir að finna svör við stóru spurningum lífsins. Hún vinnur við að hlusta eftir skilaboðum utan úr geimi. Einn daginn gerist hið óvænta. Ellie fær skilaboð frá annarri stjörnu, Vega. Hefst nú barátta hennar fyrir því að fá að svara Vegabúum og fara á vit þeirra.

"Contact" er leikstýrt af Robert Zemeckis en helstu hlutverk, fyrir utan Foster, eru í höndum Matthew McConaughey, James Woods, John Hurt, Tom Skerritt, og Angelu Bassett. Myndin verður væntanlega frumsýnd hjá Sambíóunum 26. september.

Í kjölfar "Contact" kemur "Conspiracy Theory" með Mel Gibson og Júliu Roberts, en báðar þessar myndir eru meðal tíu vinsælustu kvikmynda sumarsins í Bandaríkjunum. Richard Donner leikstýrir þessari sögu um leigubílstjóra í New York (Gibson) sem trúir því að samsæri leynist bak við alla hluti. Á bak við ruglið í honum virðist leynast einhver sannleikur og þegar lífi hans er ógnað tekst honum að sannfæra lögfræðinginn Alice (Roberts) um að hjálpa sér, en hún á líka sín myrku leyndarmál.

Spennan heldur áfram því 24. október verður hasarmyndin Air Force One frumsýnd. Harrison Ford leikur James Marshall, forseta Bandaríkjanna, sem lendir í því að vera rænt um borð í flugvél sinni Air Force One. Höfuðpaur hryðjuverkamannanna er leikinn af Gary Oldman, Glenn Close fer með hlutverk varaforsetans, og eiginkona Marshall er leikin af Wendy Crewson. Leikstjóri er Wolfgang Peterson en hann á að baki myndir eins og "Das Boot", "In the Line of Fire", og "Outbreak".

Grín og spenna í nóvember

Í byrjun nóvember kemur síðan sakamálamyndin "L.A. Confidential" . Myndin gerist á sjötta áratugnum í Los Angeles. Glamúr, spilling, metnaður, og ástríður fléttast saman þegar þrír lögreglumenn hefja rannsókn á dularfullu fjöldamorði. Kevin Spacey, Guy Pearce, og Russell Crowe takast í við persónur lögreglumannanna, en í öðrum stórum hlutverkum eru Danny DeVito, Kim Basinger, og David Strathairn. "L.A. Confidential" er leikstýrt af Curtis Hanson en myndin er byggð á skáldsögu James Ellroy.

Gamanmyndin "Father's Day" með þeim Robin Williams og Billy Crystal kemur síðan í Sambíóin 14. nóvember. Þeir félagar lenda saman í ævintýralegri ferð þegar þeir reyna að hjálpa vandræðaunglingi sem báðir telja sig hafa feðrað. Ivan Reitman ("Ghostbusters", "Twins") leikstýrir hamaganginum.

Í nóvember er einnig væntanleg gamanmyndin "For Rosanna" með Jean Reno og Mercedes Ruehl. Myndin gerist á Ítalíu og fjallar um hjónin Roseanne og Marcello. Hún er hjartveik og á bara eina ósk, að vera grafin við hlið dóttur sinnar en kirkjugarðurinn er óðum að fyllast og spurning hvort hún fái hinstu ósk sína uppfyllta. Leikstjóri er Paul Weiland en hann hefur m.a. stýrt "City Slickers 2" og unnið með Rowan Atkinson sjónvarpsþætti um "Mr. Bean".

Í lok nóvember verða tryllirinn "Fire Down Below" og nýjasta Disney teiknimyndin "Hercules" frumsýndar. Bardagastjarnan Steven Segal ber hitann og þungann af "Fire Down Below". Hann leikur umhverfisverndarsinnann Jack Taggart sem við upphaf myndarinnar hefur bara eitt í huga, að hefna dauða náins starfsfélaga. Marg Helgenberg, Harry Dean Stanton, Stephen Lang, og Kris Kristofferson fylla upp í hlutverkagalleríið í myndinni en leikstjóri er Felix Enriquez Alcala.

Aðdáendur Disney-teiknimynda geta síðan glaðst fyrir jólin þegar "Hercules" birtist á hvíta tjaldinu. Söngur, grín, og gleði einkenna þess frásögn af grísku goðsagnahetjunni Herkúles. Bíógestir geta einnig hlegið með frumskógarmanninum George um jólin í "George of the Jungle" en spennufíklar fá sinn skammt hjá sjálfum 007 en "Tomorrow Never Dies" verður væntanlega frumsýnd 26. desember.

Contact - Ellie (Jodie Foster) vill ná sambandi við geimverur.

Conspiracy Theory - Julia Roberts veit ekki hvort hún á að trúa frásögnum Mel Gibson.

L.A. Confidental - Kevin Spacey ræðir málin við leikstjórann Curtis Hanson.

Father's Day - Billy Crystal og Robin Williams grínast saman.