Verkkaupum boðnar heildar-
lausnir í sífellt meiri mæli
Á næstu árum mun væntanlega
færast í vöxt að ráðgjafarfyrirtæki bjóði verkkaupum upp á heildarlausnir í sambandi við verklegar framkvæmdir. Þeirrar þróunar gætir í stöðugt auknum mæli erlendis og hér á landi eru ráðgjafarfyrirtæki byrjuð að feta sig inn á þessar brautir, eins og sjá mátti er Kópavogsbær ákvað í síðustu viku að ganga til samninga við VSÓ ráðgjöf og fleiri aðila um byggingu leikskóla við Funalind, sem afhenda á næsta vor.
Þorbergur Karlsson, verkfræðingur hjá VSÓ ráðgjöf, sagði í samtali við Morgunblaðið að þess gætti í æ ríkari mæli erlendis að ráðgjafarfyrirtæki kæmu fram með hugmyndir og héldu þeim áfram gagnvart verkkaupa allt til loka. Þessarar þróunar myndi eflaust eiga eftir að gæta hér á landi í ríkara mæli og hann ætti ekki von á öðru en haldið yrði áfram á þessari braut. Raunar væri hann á leiðinni á þing alþjóðasamtaka ráðgjafarverkfræðinga þar sem þessi þróun væri eitt helsta umræðuefnið og þær breytingar sem yrðu á þessari starfsemi í framtíðinni.
VSÓ ráðgjöf átti frumkvæðið að því að bjóða Kópavogsbæ að standa að byggingu leikskólans í samvinnu við Arkitektastofu Finns Björgvinssonar og Hilmars Þórs Björnssonar og verktakafyrirtækið Birgi í Kópavogi. Bænum var gert tilboð um að byggja skólann og fjármagna framkvæmdirnar og einnig var bænum boðið upp á þann möguleika að byggingaraðilarnir leigðu bænum húsið fyrstu fimm árin. Sú leið var ekki valin þar sem í ljós kom að einkaaðilar voru ekki samkeppnisfærir við sveitarfélög um fjármögnun svona framkvæmda, vegna þess að sveitarfélögum standa til boða mun hagkvæmari kostir á fjármagnsmarkaði en einkaaðilum. Niðurstaðan varð sú að tilboðsgjafarnir fjármagna framkvæmdina á byggingartímanum fram til afhendingar skólans næsta vor.
Ábyrgð á öllu verkefninu
Þorbergur sagði að það sem stýrði þessari þróun væri bæði það að menn væru að afla sér verkefna með þessum hætti, en þó væri meginskýringin sú að margir verkkaupar væru farnir að setja fram óskir um að skipta einungis við einn aðila sem hefði með höndum og bæri ábyrgð á öllum þáttum verksins.
Þær kröfur yrðu stöðugt háværari að ólíkir þættir hvers verks yrðu sameinaðir, eins og hönnun, framkvæmd, verkefnisstjórnun og fjármögnun. Þannig vildu margir verkkaupar geta átt kost á því að geta leitað til eins aðila um alla þessa þætti í stað þess að þurfa að eiga samskipti við marga aðila, sem hver hefði með höndum ólíka þætti. Þá væri farið að bera á því í mörgum tilfellum að einnig væri boðið upp á rekstur mannvirkisins til 23 ára eftir að framkvæmdin væri tilbúin. Þannig væri verkkaupanum boðin enn frekari trygging fyrir því að byggingin væri gerð á eins hagkvæman hátt og kostur væri.
Það væri ekkert frekar ráðgjafarfyrirtækið en aðrir aðilar sem kæmu að einstökum þáttum verksins sem byðu upp á þetta. Það gæti allt eins verið verktakafyrirtækið, fjármögnunaraðilinn, arkitektarnir og verkfræðingarnir sem stæðu að því að bjóða verkkaupa upp á slíkar heildarlausnir.