Þór Sigfússon. Fjölsýn forlag ­ 1997, 120 bls. ÞEGAR aldamót nálgast huga menn gjarnan að framtíðinni, reyna að átta sig á því hvaða öfl fortíðar muni móta hana og hvernig við getum haft áhrif á hana með því að breyta hugarfari okkar og athöfnum.

Framtíðarsýn: Óhindr-

að flæði fjármagns

BÆKUR

Hagfræði

ÖRRÍKI Á UMBROTATÍMUM

Þór Sigfússon. Fjölsýn forlag ­ 1997, 120 bls.

ÞEGAR aldamót nálgast huga menn gjarnan að framtíðinni, reyna að átta sig á því hvaða öfl fortíðar muni móta hana og hvernig við getum haft áhrif á hana með því að breyta hugarfari okkar og athöfnum. Slíkar pælingar eru gagnlegar fyrir margra hluta sakir, ekki síst þegar þær bregða birtu á verðmætamat okkar og skilning á lífsgæðum; þær geta sýnt hvað það er í okkur og í kringum okkur sem við teljum að eigi einkum erindi við framtíðina og hvað við viljum að fortíðin geymi ein.

Í bókinni Örríki á umbrotatímum spáir Þór Sigfússon í framtíðina, reynir að sjá fyrir sér og lýsa Íslendingum 21. aldar, veltir fyrir sér hver staða Íslands muni verða í Evrópu og innan Norðurlanda, hvernig fyrirtæki framtíðarinnar komi til með að líta út og ræðir um framvindu alþjóðavæðingar og hvernig menntakerfið eigi að laga sig að breyttum heimi. Þór fer ekki leynt með hvaða verðmætamat hann leggur til grundvallar. Hann vill að við beinum sjónum okkar að "emmunum þremur", mannúð, menntun og markaðsbúskap og telur að lífsgæði okkar á 21. öld muni ráðast af því hversu vel okkur tekst upp á þessum þremur sviðum. Til að stíga skrefið inn í framtíðina verðum við að dómi Þórs að leggja áherslu á hugvit (fremur en handafl), við verðum að skilja eðli þess þekkingarsamfélags sem mun setja síaukinn svip á veruleika okkar og einnig kunna skil á hvernig fyrirtækin eru að breytast, ekki síst hugsjónir þeirra um aukna samvinnu. Í þekkingarsamfélagi framtíðarinnar verði megináhersla lögð á fyrirtækjanet og óhindrað flæði fjármagns.

Það eru ýmsar góðar athugasemdir í þessari bók. Höfundur gerir t.d. ýmislegt til að beina sjónum lesenda að smæð landsins og þeirri staðreynd að fæstir útlendingar vita að við erum til, hvað þá að þeir séu að taka okkur til fyrirmyndar. Hann reynir einnig að slá á óhóflega bölsýni um framtíð okkar og vísar henni reyndar til föðurhúsanna. Umræðan um fyrirtæki framtíðarinnar er athyglisverð og hugmyndin um þekkingarsamfélagið er góðra gjalda verð. Hins vegar hefði höfundur mátt huga betur að fjölmörgu varðandi efnistök og framsetningu.

Stærsti ókostur bókarinnar lýtur að skipulagi og framsetningu. Í upphafi vekur höfundur væntingar um spennandi umræðu um fyrirtækjanet í þekkingarsamfélagi framtíðar en að þessum efnisflokki er ekki komið fyrr en í bókarlok. Og þótt sú umræða sé athyglisverð er hún knöpp og meginefni bókarinnar undirbýr lesandann ekki markvisst fyrir hana. Öðru nær, bókin er of sundurlaus, vaðið er úr einu í annað og endurtekningar eru margar. Höfundur kemur snemma orðum að meginhugðarefni sínu (að fjármagn fái að flæða óhindrað milli svæða) og þrástagast síðan á því. Ég reyndi að halda saman hversu oft höfundur nefnir þennan draum sinn (eða náskylda drauma) en hætti því þegar "prikin" fylltu fimmta tuginn. Leiðinlegt er að stagl- eða upptuggustíll virðist vera orðinn opinber stíll íslenskra frjálshyggjumanna. Setur það leiðan svip á athyglisverða stefnu og gefur til kynna hugmyndafæð hennar. En þótt hamrað sé á mikilvægi óhindraðs flæðis fjármagns og frjálsrar samkeppni ad nauseam er umræðan um menntun brotakenndari (höfundur virðist hafa afar þrönga sýn til menntunar) og ekki fer mikið fyrir umræðu um mannúð, utan að höfundur nefnir að heilsufar fólks sé án efa eitt skýrasta dæmi um mannúð í þjóðfélaginu! Mér fannst viðeigandi að þegar höfundur nefnir emmin sín þrjú síðar í bókinni hefur röðin breyst og er nú menntun, markaðsbúskapur og mannúð og hefði vafalítið orðið markaðsbúskapur, menntun og mannúð ef bókin hefði orðið lengri! Eins skortir verulega á að höfundur staldri við, þrói og útlisti athugasemdir sínar og skoðanir. Yfirleitt er þeim slengt fram í véfréttastíl, sem er e.t.v. að einhverju leyti afsakanlegt í bók um framtíðina (sjá t.d. umræðu um Íslendinga 21. aldar) en virkar oft kjánalega eða sem ósanngjörn gagnrýni (sjá t.d. umræðu um kennara bls. 88). Stundum er erfitt að meta hvort eitthvað hafi skolast til í framsetningu eða höfund skorti þekkingu. Á einum stað segir: "... þarf því ekki síður að beita hugvitssemi og koma fram með nýja hugsun. Bretar eru að taka upp það kerfi að fólk sendir inn til ríkisins einfalt skattframtal þar sem framteljendur reikna sjálfir út þann skatt sem þeim ber að greiða og senda ávísun með skattframtalinu" (bls. 65). Þessi hugsun er ekki nýrri eða frjórri en svo að Bandaríkjamenn hafa viðhaft þennan sið um árabil og sama gildir um Kanadamenn. Á öðrum stað segir: "Á sama tíma hallaði nokkuð undan fæti hjá Route 128-svæðinu sem liggur á milli Boston og Massachusettsfylkis í Bandaríkjunum" (bls. 102). Tæplega er sá vegarspotti langur sem liggur á milli Boston og Massachusettsfylkis!

Höfundur bendir á að erfitt sé að alhæfa um lífsgæði og verðmætamat. Sjálfur virðist hann ekki eiga í neinni kreppu hvað þetta varðar enda fylgir hann trúfastlega þeirri reglu að ef eitthvað sé gott megi rekja það til frjálsrar samkeppni og ef eitthvað sé slæmt sé það tilkomið vegna hindrunar á flæði fjármagns. Sjálfur tel ég að til að rýna í framtíðina þurfi flóknari formúlur og meiri íhugun.

Róbert H. Haraldsson

Þór

Sigfússon