Ortiz og Davidovitsj
meðal einleikara
TÓNLEIKAR kvöldsins eru í svonefndri Rauðri röð en það sem
einkennir hana öðru fremur er flutningur á vinsælum einleikskonsertum. Fimm aðrir tónleikar verða í Rauðu röðinni í vetur.
16. október mun finnski hljómsveitarstjórinn Hannu Lintu stjórna tónleikum, þar sem hinn kunni píanóleikari Cristina Ortiz mun flytja Píanókonsert nr. 20, K.466 eftir Mozart. Jafnframt verða á efnisskránni Gleðiforleikur eftir Madetoja og Þriðja sinfónía Brahms.
Petri Sakari, aðalhljómsveitarstjóri SÍ, mun halda um tónsprotann á tónleikum sem verða haldnir 20. nóvember en þar mun Sigurður Yngvi Snorrason flytja klarínettkonsert Mozarts, auk þess sem verk eftir Leif Þórarinsson og Sibelius munu hljóma.
Einleikarinn á tónleikunum 22. janúar 1998, Jenö Jandó, færist mikið í fang en hann mun flytja báða píanókonserta Liszts. Stjórnandi verður En Shao en verk eftir Kodaly og Bartók verða jafnframt á efnisskránni.
Við annan tón kveður á fimmtu tónleikum raðarinnar en þá mun þýska söngkonan Andrea Catzel flytja Fjóra síðustu söngva Strauss. Witold Lutoslawski á einnig verk á tónleikunum sem Petri Sakari stjórnar.
Síðustu tónleikar Rauðu raðarinnar verða haldnir 14. maí en þá stígur á svið rússneski píanóleikarinn Bella Davidovitsj en hún mun halda upp á sjötugsafmæli sitt næsta sumar. Á efnisskrá tónleikanna verða eingöngu verk eftir Beethoven en hljómsveitarstjóri verður Ole Christian Ruud frá Noregi en SÍ hefur lengi haft hug á að fá hann til liðs við sig.