TÓNLEIKAR kvöldsins eru í svonefndri Rauðri röð en það sem einkennir hana öðru fremur er flutningur á vinsælum einleikskonsertum. Fimm aðrir tónleikar verða í Rauðu röðinni í vetur. 16. október mun finnski hljómsveitarstjórinn Hannu Lintu stjórna tónleikum, þar sem hinn kunni píanóleikari Cristina Ortiz mun flytja Píanókonsert nr. 20, K.466 eftir Mozart.

Ortiz og Davidovitsj

meðal einleikara

TÓNLEIKAR kvöldsins eru í svonefndri Rauðri röð en það sem einkennir hana öðru fremur er flutningur á vinsælum einleikskonsertum. Fimm aðrir tónleikar verða í Rauðu röðinni í vetur.

16. október mun finnski hljómsveitarstjórinn Hannu Lintu stjórna tónleikum, þar sem hinn kunni píanóleikari Cristina Ortiz mun flytja Píanókonsert nr. 20, K.466 eftir Mozart. Jafnframt verða á efnisskránni Gleðiforleikur eftir Madetoja og Þriðja sinfónía Brahms.

Petri Sakari, aðalhljómsveitarstjóri SÍ, mun halda um tónsprotann á tónleikum sem verða haldnir 20. nóvember en þar mun Sigurður Yngvi Snorrason flytja klarínettkonsert Mozarts, auk þess sem verk eftir Leif Þórarinsson og Sibelius munu hljóma.

Einleikarinn á tónleikunum 22. janúar 1998, Jenö Jandó, færist mikið í fang en hann mun flytja báða píanókonserta Liszts. Stjórnandi verður En Shao en verk eftir Kodaly og Bartók verða jafnframt á efnisskránni.

Við annan tón kveður á fimmtu tónleikum raðarinnar en þá mun þýska söngkonan Andrea Catzel flytja Fjóra síðustu söngva Strauss. Witold Lutoslawski á einnig verk á tónleikunum sem Petri Sakari stjórnar.

Síðustu tónleikar Rauðu raðarinnar verða haldnir 14. maí en þá stígur á svið rússneski píanóleikarinn Bella Davidovitsj en hún mun halda upp á sjötugsafmæli sitt næsta sumar. Á efnisskrá tónleikanna verða eingöngu verk eftir Beethoven en hljómsveitarstjóri verður Ole Christian Ruud frá Noregi en SÍ hefur lengi haft hug á að fá hann til liðs við sig.