Jákvætt starfsfólk hjá Háskólabíói
ÉG FÓR með börnunum
mínum að sjá Kolja um daginn, en hún er sýnd í litlum sal í kjallaranum. Þetta var á frumsýningardegi Mr. Bean, allt troðfullt í húsinu og mikið að gera.
Litla dóttir mín hafði misst tönn fyrr um daginn og ég var með hana í veskinu. Þegar heim var komið fannst ekki tönnin og það var mikil sorg, því hún geymir allar tennurnar í kassa. Það hvarflaði ekki að mér að tönnin mundi finnast, en ég ákvað samt að hringja í Háskólabíó og talaði þar við ungan mann sem ég held að heiti Einar Logi. Ég var hálfafsakandi yfir þessu veseni, en hann hélt að það væri ekki nema sjálfsagt að leita að tönninni, og sagðist sjálfur einu sinni hafa verið sjö ára og vissi hvað þetta gat skipt miklu máli. Hann athugaði málið fyrir mig og ég fékk að koma aftur fyrir 9-sýningu að leita. Þar var að sjálfsögðu heilmikið að gera, en samt sem áður gekk maður undir manns hönd við að aðstoða mig og ég fann tönnina. Og það birti yfir heimilislífinu þegar ég kom heim með tönnina.
Mig langar að þakka þetta jákvæða og elskulega viðmót, og maður verður bjartsýnn á framtíðina þegar maður hittir svona elskulegt ungt fólk.
Ragnheiður.
Stuðningur við kennara
SEM móðir fyrrverandi leikskólabarns og núverandi skólabarns langar mig að styðja leikskólakennara í baráttu sinni fyrir bættum kjörum. Mér finnst rétt að benda á að kennarar eru bundnari við vinnu sína en margar aðrar starfsstéttir. Ef við tökum utanlandsferðir sem dæmi þá geta þeir ekki nýtt sér stuttar haustferðir til útlanda, t.d. helgarferðir, þar sem þeir fá ekki frí til slíks. Einnig finnst mér að það eigi að umbuna góðu starfsfólki og gefa kennurum stutt leyfi til að sinna fjölskyldunni eða öðrum áhugamálum ef þeir þurfa á að halda yfir skólaárið.
Anna Sigurðardóttir.
Óánægja með Samhjálp
VELVAKANDA barst eftirfarandi: "Það undrar mig að Samhjálp skuli reka og hafa til umráða gistiskýlið við Þingholtsstræti meðan húsnæðislaust fólk gengur um borgina. Þeir hafa oft synjað þeim sem hvergi hafa höfði að halla um gistingu. Ég spyr hvers vegna er þeim í Krossinum, Veginum eða Klettinum, sem eru einnig sértrúarsöfnuðir, ekki boðið að reka gistiskýlið. Samhjálp fær á þriðja tug millj. fyrir að reka þetta heimili og ég botna ekki í svona spillingu. Þetta var mikið betur rekið þegar félagsmálastofnun rak þetta heimili, þá var fólki ekki úthýst að ástæðulausu. Mér finnst brjálæði að það sé verið að eyða peningum í Samhjálp á allan hátt. Það ætti að stoppa þetta. Þeir reka einnig matstofu á Hverfisgötu þar sem þeir gefa súpu einu sinni á dag. Ég gef ekki mikið fyrir það ómeti. Mér finnst að svona fólk ætti að skammast sín."
Jónas Gunnarsson,
Vesturgata 18, Hafnarf.
Dýrahald
Læðu vantar heimili
TVEGGJA ára læðu vantar heimili helst sem fyrst. Uppl. í síma 554 0902 eftir kl. 13 eða 554 5737 eftir kl. 17.