STANGAVEIÐIFÉLAG Reykjavíkur verður með Norðurá í Borgarfirði á leigu til sumarsins 2002, eftir að samkomulag náðist þar að lútandi í síðustu viku. Veiðifélag Norðurár samþykkti þá tilboð SVFR á félagsfundi, en SVFR hefur haft ána á leigu um langt árabil og núgildandi leigusamningur hefði runnið út eftir sumarið 1998.
Eru þeir að fá 'ann?

SVFR leigir Norðurá til 2002

STANGAVEIÐIFÉLAG Reykjavíkur verður með Norðurá í Borgarfirði á leigu til sumarsins 2002, eftir að samkomulag náðist þar að lútandi í síðustu viku. Veiðifélag Norðurár samþykkti þá tilboð SVFR á félagsfundi, en SVFR hefur haft ána á leigu um langt árabil og núgildandi leigusamningur hefði runnið út eftir sumarið 1998.

"Þetta sýnir vilja beggja aðila í verki og fyrir SVFR var brýnt að ganga frá þessu því það eru fleiri aðilar sem telja sig geta selt í ána og hefðu viljað leigja hana. Við höfum haft þá reglu að gefa ekki upp leiguupphæðir, höfum litið á það sem trúnaðarmál milli SVFR og landeigenda, en ég get þó sagt að leiguupphæðin hækkar um 10%. Það hefur verið þensla á markaðnum að undanförnu og ég tel að Norðurá þoli dálitla hækkun, hún hefur verið aflahæsta áin síðustu sumur og er það enn í ár ef aðeins eru skoðaðar náttúrulegar laxveiðiár," sagði Friðrik Þ. Stefánsson formaður SVFR í samtali við blaðið.

Góðar sjóbirtingsgöngur

Rífandi veiði hefur verið í Hörgsá á Síðu er veður hefur leyft og að sögn kunnugra er mikill fiskur í ánni, sérstaklega í hyljum neðarlega á svæðinu. "Nokkrir félaga minna voru að koma úr ánni. Þeir áttu tvo daga og voru líka í Eldvatni á Brunasandi. Seinni daginn gátu þeir ekkert veitt vegna veðurs, en veiðin hjá þeim var 16 fiskar eftir fyrri daginn. Nær allt stórir birtingar, en einnig nokkrar bleikjur sem þeir fengu í Eldvatni. Þar hefur sjóbirtingsveiðin einnig verið að glæðast.

Rúmlega 100 birtingar eru komnir úr Hörgsá og hafa flestir veiðst síðustu tvær til þrjár vikurnar. Þeir stærstu eru 12­14 punda og menn hafa séð enn stærri fiska í ánni," sagði Jón Marteinsson, einn umsjónarmanna Hörgsár og Eldvatns í samtali við blaðið.



VEIÐI er fyrir nokkru lokið í vötnum og ársprænum á Arnarvatnsheiði. Þegar veður hafa verið hagstæð þar efra hafa margir átt dýrðarstundir við veiðiskapinn eins og Jón Bergsson sem er hér ásamt konu sinni, Guðrúnu H. Sederholm, með afla þeirra hjóna.