Álit prófessora í læknadeild Háskóla Íslands á skýrslu um sameiningu sjúkrahúsa Öflugt háskólasjúkrahús góður kostur Sameining Landspítalans ogSjúkrahúss Reykjavíkur og fjögurraannarra sjúkrahúsa þykir góður kosturí svokallaðri VSÓ-skýrslu heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytis.
Álit prófessora í læknadeild Háskóla Íslands á skýrslu um sameiningu sjúkrahúsa

Öflugt háskólasjúkra-

hús góður kostur

Sameining Landspítalans og Sjúkrahúss Reykjavíkur og fjögurra annarra sjúkrahúsa þykir góður kostur í svokallaðri VSÓ-skýrslu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis. Í framtíðarsýn skýrslunnar er í framhaldi sameiningarinnar boðað eitt og fullkomið háskólasjúkrahús á Íslandi. Guðrún Guðlaugsdóttir ræddi við prófessora við læknadeild Háskóla Íslands um þessa framtíðarsýn og fleira úr umræddri skýrslu.

Í SKIPULAGSATHUGUN sjúkrahúsanna í Reykjavík og nágrenni sem heilbrigðis- og tryggingaráðuneyti lét VSÓ ráðgjöf gera í samvinnu við Ernst & Young kemur fram sú framtíðarsýn að á Íslandi verði, eftir sameiningu Landspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur ásamt fjórum smærri sjúkrahúsum í nágrenni Reykjavíkur, komið á fót öflugu háskólasjúkrahúsi.

Ýmsir læknar létu í samtölum við Morgunblaðið fyrir skömmu í ljós þá skoðun að fyrir kennslu í læknadeild væri allvel séð með því skipulagi sem nú ríkir, en kennslan fer fram á Landspítala, Sjúkrahúsi Reykjavíkur og fleiri stofnunum. Þeir prófessorar við læknadeild sem Morgunblaðið leitaði álits hjá, segja hins vegar að eitt öflugt háskólasjúkrahús virðist betri kostur en sú skipan sem nú ríkir, en eru sammála um að því takmarki verði ekki náð nema að kosta til þess talsverðu fé.

Þeir telja að slíkt framtíðar háskólasjúkrahús sé ekki síst góður kostur út frá faglegum forsendum og eru þeirrar skoðunar að stefna beri að þessu markmiði eða auka sem mest samvinnu og samhæfingu sjúkrahúsanna. Sjálfa skýrsluna telja þeir þó í mörgum atriðum gallaða.