KENNINGAR kirkjunnar í dag eru reyndar ekki eins og þær voru í frumkristninni. Þær kenningar sem menn styðjast við í dag eru ekki nægilega nákvæmar og góðar. Þess vegna er það hrein vitleysa að styðjast við sumar af þessum kenningum í bókinni Credo. Það er heldur ekki rétt að dæma aðra eftir einhverju sem misbýður jafnvel kirkjunni sjálfri. Dr.
Athugasemdir viðgreinar í Bjarma
Kirkjunnar menn hafa allt frá frumkristni, segir Þorsteinn Sch. Thorsteinsson, haft skiptar skoðanir á kenningunum.
KENNINGAR kirkjunnar í dag eru reyndar ekki eins og þær voru í frumkristninni. Þær kenningar sem menn styðjast við í dag eru ekki nægilega nákvæmar og góðar. Þess vegna er það hrein vitleysa að styðjast við sumar af þessum kenningum í bókinni Credo. Það er heldur ekki rétt að dæma aðra eftir einhverju sem misbýður jafnvel kirkjunni sjálfri. Dr. Einar Sigurbjörnsson útskýrir það þannig að: "Upprisa mannsins byggist á upprisu Krists" (Bjarmi, mars ´97). Það væri betra að segja að upprisa mannsins byggist á kærleikslögmáli Guðs, á upprisu Krists og á ábyrgðarhluta mannsins eða á sjálfum manninum.
Frá dauðanum til lífsins því að menn elska bræður sína
Dæmi í 1. Jh. 3.1 4 segir: "Vér vitum, að vér erum komnir yfir frá dauðanum til lífsins, af því vér elskum bræðurna. Sá sem ekki elskar, er áfram í dauðanum." Að vera andlega dauður þýðir að geta ekki elskað aðra. Að vera andlega lifandi þýðir að hann elskar aðra. Ef maðurinn trúir bara á Jesú Krist, en síðan elskar ekki bræður sína eða sinnir ekki þeim ábyrgðarhluta, getur hann ekki ætlast til þess að hann rísi upp til eilífs lífs. Í 1. Kor. 13.2 segir, að ". . .þótt ég hefði svo takmarkalausa trú að færa mætti fjöll úr stað en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt." Af þessu getum við skilið að það hefur meira gildi fyrir manninn að hafa kærleika heldur en að hafa takmarkalausa trú.
Orðið dauður hefur tvenns konar merkingu
Ef við athugum það sem Jesús sagði við menn, að: ". . .Lát hina dauðu jarða sína dauðu. . ." (Lúk. 9.60) Getur maður sem er líkamlega dauður jarðað einhvern mann sem er eins ástatt um eða líkamlega dauður? Eða vilja menn túlka það sem Jesús sagði sem algjört rugl? Jesús notaði orðið "dauður" í tveim merkingum. Maður sem er lífeðlisfræðilega lifandi en andlega dauður getur hins vegar jarðað mann sem er bæði andlega og líkamlega dauður, eftir því sem Jesús sagði. Sjá einnig Op. 3,1 ". . .ég þekki verkin þín, að þú lifir að nafninu til, en ert dauður" (andlega dauður). Ritningin segir okkur einnig, að: ". . .Ef jarðneskur líkami er til, þá er til andlegur líkami." Kirkjunnar menn rétt eins og Einar er hafa verið að fordæma önnur trúarbrögð og aðra kristna meðbræður sína hvað eftir annað í fleiri áratugi, verða að fara að skilja það í eitt skipti fyrir öll, að til eru tvenn hugtök lífs og dauða, áður en þeir fara síðan að fordæma aðra. Segi ég sem er ekki spíritisti, heldur aðeins áhugamaður um þessi mál.
Trúin er ónýt án verka
Það er greinilegt að menn hafa lítinn skilning á þessum túlkunaratriðum. Menn vilja stöðugt benda á Ef. 2.89 eins og kemur fram í blaðinu og túlka versið þannig, að: "menn geti ekki orðið hólpnir af eigin verkum heldur aðeins fyrir trú á Jesú Kristi" (Bjarmi, mars ´97). En Biblían segir: "Fávísi maður! Vilt þú láta þér skiljast, að trúin er ónýt án verkanna?" (Jak. 2.20).
Maðurinn var skapaður til þess að lifa kærleiksríku lífi með Guði. Hann getur reyndar ekki náð neinum andlegum þroska eða upprisu öðru vísi en, að hann lifi samkvæmt þessu kærleikslögmáli og þannig uppfyllt lögmál sköpunarinnar. Í því felst að menn setji kærleikann í framkvæmd og lifi þannig lífinu fyrir aðra. Því að það sem er byggt á jörðu er byggt á himni og það sem er leyst á jörðu er leyst á himni. Upprisan eða endurreisnarstarfsemi Guðs byrjaði reyndar strax eftir syndafall mannsins og stendur til þess dags er Guðsríki verður að veruleika hér á jörðu, en upprisan kemur hins vegar ekki til með að eiga sér öll sömul stað á sjálfum dómsdeginum. Upprisan er því eitthvað sem á sér stað daglega.
Dauðinn þarf ekki að vera aðskilnaður frá Guði
Einar fullyrðir að: "Dauðinn sem er aðskilnaður frá Guði er því refsing." Dauður maður þarf ekki að vera aðskilinn frá Guði. Maður sem að nafninu til er lifandi, en andlega dauður er aðskilinn frá Guði. En maður sem er líkamlega dauður en andlega lifandi er ekki aðskilinn frá Guði skv. 1. Jh. 3.14. Dauðinn er auk þess ekki refsing Guðs, heldur refsar maðurinn sér sjálfur. Skv. Lúk. 17.33 segir: "Hver, sem reynir að ávinna líf sitt, mun týna því, en hver, sem týnir því, mun varðveita það." Við vitum, að hversu trúaður, sem kristinn maður kann að vera, deyr efnislegi líkami hans. Af þessu getum við skilið, að Jesús átti ekki við að frelsun sú er hann gæfi, gæfi eilíft efnislegt líf, heldur að hún gæfi eilíft andlegt líf undir yfirráðum ástar Guðs. Þess vegna hefur dauði efnislega líkamans ekki áhrif á eilíft líf mannsins. Ef maðurinn svíkur vilja Guðs til þess að varðveita efnislegan líkama sinn, verður hann að dauðum manni, jafnvel þó að efnislegur líkami hans lifi.
Upphugsaðar kenningar
Kirkjunnar menn hafa haft skiptar skoðanir á hinum ýmsu kenningum allt frá tímum frumkristninnar. Nýja testamentið (NT) var reyndar tekið saman á 4. öld e.k. Fyrir þann tíma höfðu menn viðurkennt og notast við önnur Guðspjöll Maríu, Filippusar og Péturs og Bók Enoch og Didache (kenningar postulanna tólf) sem hluta af ritningunni. Síðan voru það aðrir sem vildu ekki viðurkenna rit eins og t.d 2. Pétursbréf og Opinberunarbókina. Mikil áhersla var lögð á það að hafa eingöngu fjögur guðspjöll í samræmi við hinar fjóru vindáttir. Það voru því miklar deilur um þessi rit og önnur þar til menn gátu komið saman NT. Ekkert ósvipað þessu gerðist í Níkeu er menn höfðu kosningu um þrenningarkenninguna, sem var reyndar komið á með eins atkvæðis mun. Menn höfðu frekar átt að hafa öll ritin í NT og þannig leyft mönnum að ráða því sjálfir hverju þeir vildu trúa eða fara eftir. Ef kirkjunnar menn ætla sér hins vegar að nota einhverjar upphugsaðar kenningar eða hugmyndir til þess að fordæma aðra, þá er svarið við því ennþá meiri óþægindi fyrir þá sjálfa. Einnig ef kirkjunnar menn ætla sér að nota þessar kenningar sem þjóðkirkjan styðst við í dag til að túlka eitt og annað, sökum þess að þær stangast á við Biblíuna, eins og t.d. um dauðann og upprisuna.
Höfundur er talsmaður "Samstarfsnefndar trúfélaga fyrir heimsfriði".
Þorsteinn Sch. Thorsteinsson