AUGLÝSINGASTOFAN Hvíta húsið hefur í samvinnu við framleiðslufyrirtækið Hugsjón gert Lion bar auglýsingu fyrir breska sælgætisrisann Nestlé Rowntree. Auglýsingin er tekin á breska náttúrugripasafninu í London og meðal leikara er íslenska fyrirsætan Ásdís María Franklín.
ÐHvíta húsið gerir auglýsingu fyrir sælgætisrisann Nestlé Rowntree

Á að auka sölu á

Lion bar á Íslandi

AUGLÝSINGASTOFAN Hvíta húsið hefur í samvinnu við framleiðslufyrirtækið Hugsjón gert Lion bar auglýsingu fyrir breska sælgætisrisann Nestlé Rowntree. Auglýsingin er tekin á breska náttúrugripasafninu í London og meðal leikara er íslenska fyrirsætan Ásdís María Franklín.

Að sögn Þóreyjar Bjarnadóttur, sölustjóra Danól, umboðsaðila Nestlé Rowntree á Íslandi, verður auglýsingin fyrst sýnd opinberlega í kvöld, en hún er liður í auglýsingaherferð sem Danól er að setja á laggirnar fyrir Lion bar súkkulaði og á að standa yfir næstu sex vikurnar. "Við hjá Danól höfum sett okkur það markmið að stórauka söluna á Lion bar á Íslandi á næstu mánuðum. Því ákváðum við í samráði við Nestlé Rowntree að láta framleiða auglýsingu sem byggði á vörumerki Lion bar, öskrinu. Það er hörð samkeppni í sölu á sælgæti á Íslandi og til þess að ná til viðskiptavinanna er nauðsynlegt að vera með öflugt kynningarstarf á viðkomandi vöru til þess hreinlega að verða ekki undir í samkeppninni. Við væntum þess að með auglýsingunni og leikjum sem fylgja í kjölfarið muni markaðshlutdeild Lion bar aukast verulega á Íslandi enda framundan bestu mánuðirnir á árinu í sölu á súkkulaði."

Náttúrugripasafnið í London varð fyrir valinu

Auglýsingin var tekin upp á einni nóttu í júní síðastliðinn í London undir leikstjórn Björns Brynjólfs Björnssonar hjá Hugsjón en að sögn Sverris Björnssonar, hönnunarstjóra Hvíta hússins, stóð undirbúningurinn yfir í nokkra mánuði á undan. "Danól leitaði til okkar í apríl um gerð auglýsingarinnar og fór undirbúningsvinnan strax af stað. Eins og algengt er við gerð auglýsinga voru ýmsar hugmyndir á borðinu en að endingu var ákveðið að taka auglýsinguna upp á náttúrugripasafninu í London eftir mikla leit víða um heim að heppilegum tökustað. Þar sem mjög dýrt er að taka upp auglýsingu og okkur stóðu til boða afnot af safninu í eina nótt urðum við að æfa auglýsinguna að degi til í nokkur skipti áður og var ansi gaman að fylgjast með viðbrögðum safngesta þegar ég brá mér í hlutverk Ásdísar Maríu á æfingum auk annarra hlutverka."

Viðar Garðarsson, hjá Hugsjón, bætir því við að þegar tökur hófust 21. júní í safninu hafi aðstandendur auglýsingarinnar talið að allt myndi ganga upp en síðan hafi komið í ljós um nóttina að það fór að birta fyrr en gert var ráð fyrir. "Við vissum nákvæmlega hvenær fór að dimma um kvöldið en við vorum í það lengsta að taka upp þannig að undir morguninn gekk mikið á til þess að láta hlutina ganga upp við rétt birtuskilyrði þar sem glerþak er á byggingunni. En þetta tókst allt saman og við erum mjög ánægð með árangurinn."

Ólafur Gaukur sá um gerð tónlistarinnar í auglýsingunni og má segja að um alíslenska auglýsingu sé að ræða fyrir utan einn breskan leikara og tökustaðinn.

Morgunblaðið/Jón Svavarsson HEIÐAR Gunnlaugsson, framleiðslustjóri Hvíta hússins, Þórey Bjarnadóttir, sölustjóri Danól, Viðar Garðarsson, frá Hugsjón, framleiðanda auglýsingarinnar, og Sverrir Björnsson, hönnunarstjóri Hvíta hússins, kynntu nýju auglýsinguna fyrir starfsfólki Danól.