Ernir eru af ýmsum sagðir skaðvaldar í æðarvörpum en verulegt tjón er fátítt Stormasöm sambúð arna og æðarbænda Æðarbændur hafa oftsinnis talið sig verða fyrir búsifjum af völdum arna. Einnig eru dæmi þess að bændur telji erni valda að lambadrápi.
Ernir eru af ýmsum sagðir skaðvaldar í æðarvörpum en verulegt tjón er fátítt

Stormasöm

sambúð arna

og æðarbænda

Æðarbændur hafa oftsinnis talið sig verða fyrir búsifjum af völdum arna. Einnig eru dæmi þess að bændur telji erni valda að lambadrápi. Örninn er alfriðaður og í samantekt Ómars Friðrikssonar kemur fram að ríkið hefur aldrei viðurkennt bótaskyldu vegna tjóns af völdum friðaðra dýra. Athuganir sýna þó að verulegt tjón af völdum arna er fátítt.



ÆÐARBÆNDUR og samtök þeirra hafa iðulega á undanförnum árum kvartað til yfirvalda vegna tjóns af völdum arna í æðarvörpum. Nokkur tilfelli hafa komið upp á þessu ári þar sem æðarbændur telja að ernir hafi valdið tjóni í varplöndum, skv. upplýsingum Árna Snæbjörnssonar, hlunnindaráðunautar Bændasamtaka Íslands. Í Morgunblaðinu fyrir skömmu sagðist Guðmundur Agnar Guðjónsson, bóndi á Harastöðum í Dalasýslu, fara fram á skaðabætur vegna meints tjóns sem hann sagði að ernir hefðu valdið hjá sér.

"Æðarbændur hafa löngum kvartað undan þessu og margir þeirra talið sig verða fyrir tjóni og sumir hafa augljóslega orðið fyrir tjóni," segir Árni. "Örninn hefur gegnum tíðina gert tilfallandi usla og óskunda hjá æðarbændum hér og þar. Þetta mál er þó flókið vegna þess að annar fuglvargur kemur oft í kjölfarið og vinnur tjón sem hann hefði tæpast getað ef örninn hefði ekki komið fyrst. Á þá að kenna erninum það eða ekki? Um það deila menn. Frá sjónarhóli æðarbænda veldur örninn ekki síður óbeinu tjóni, hann veldur styggð og hrafnar og máfar eiga oft auðveldara með að koma í kjölfarið," segir hann.

Erfitt að sýna fram á tjón

Örninn er alfriðaður og hefur ríkisvaldið aldrei viðurkennt bótaskyldu vegna tjóns af völdum friðaðra dýra. Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri í umhverfisráðuneytinu, bendir á að mjög erfitt sé að sýna fram á tjón af völdum arna. "Það er grundvallaratriði í skaðabótarétti að ljóst liggi fyrir hver skaðinn er," segir hann.

Umræða um skaðsemi arnarins kom upp á Alþingi í maí á seinasta ári. Þar hélt Gísli S. Einarsson Alþýðuflokki því fram að hér væri um grafalvarlegt mál að ræða fyrir bændur sem ættu að nokkru eða verulegu leyti afkomu sína undir nytjum af æðardúni og í eggverum. Benti þingmaðurinn á að það gæti tekið 20-30 ár að koma æðarvarpi af stað að nýju þar sem það hefði lagst af vegna skaðsemi arnarins. Krafðist hann svara um bótaskyldu ríkisins vegna tjóns af völdum arna. Guðmundur Bjarnason ítrekaði þá afstöðu sem stjórnvöld hafa fylgt, að ekki sé hægt að ætlast til þess að ríkið bæti tjón af völdum dýra sem eru friðuð.

Fátítt og staðbundið

Árið 1994 skilaði Kristinn H. Skarphéðinsson, líffræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands, ítarlegri skýrslu um tjón af völdum arnarins í æðarvörpum og voru meginniðurstöður hans þær að þótt ernir hefðu valdið tjóni sem gæti verið tilfinnanlegt fyrir einstaka bændur þá sé verulegt tjón af völdum arna fátítt og staðbundið.

Æðarvarp er nytjað á 200 jörðum í heimkynnum arnarins eða frá Hvalfirði og vestur um og norður í Hrútafjörð. Könnun Kristins sumarið 1991 leiddi í ljós að rúmlega þriðjungur æðarræktarbænda sem hann talaði við taldi sig hafa orðið fyrir ágangi eða tjóni af völdum arna. Tæpur helmingur taldi tjónið ekki umtalsvert. Bændur á tíu stöðum, aðallega við norðanverðan Breiðafjörð, töldu erni vera viðvarandi vandamál og stundum valda stórtjóni. "Á einum bæ eru ernir taldir hafa valdið stórtjóni 3-4 sinnum á síðastliðnum 40 árum og dúntekja rýrnað allt að 10-20 kg. í hvert sinn. Aðrir sem tilgreindu umtalsvert tjón undanfarin 25 ár (sjö talsins) töldu sig hafa tapað 1-5 kg af dúni sum ár vegna arna," segir í skýrslunni. Þar kemur einnig fram að í tveimur af hverjum þremur tilfellum þar sem meintir skaðvaldar voru þekktir, reyndust þeir vera flökkuernir.

Rifrildisgangur á eyjunum

"Örninn hefur verið í næstu eyju við mig um áratuga skeið," segir Steinólfur Lárusson, bóndi í Ytri- Fagradal á Skarðsströnd, sem kveðst nokkrum sinnum hafa orðið fyrir óbeinum skaða vegna arnarins. "Hreiðurfuglinn gerir ekki mikinn skaða, það gerir ungfuglinn, sem er að fljúga yfir og velja sér óðal. Það er rifrildisgangur og læti á eyjunum vegna þess," segir Steinólfur.

Steinólfur segist hafa fært í tal við fuglaverndunarmenn að reynt yrði að flæma örninn úr varplöndunum upp í kletta, þar sem hann verpti áður en byggð lagðist af í eyjunum. "Þeir taka það ekki í mál. Ég vil alls ekki að þessi fugl útrýmist. Ég hef látið hann í friði og stuðlað að því að hann hefði framgang" segir Steinólfur.

Arnarstofninn hefur staðið í stað í rúman áratug. Samkvæmt talningu í sumar eru nú 38 arnarpör á landinu og vitað er um 31 arnarvarp í vor. Að meðtöldum ungfuglum er áætlað að arnarstofninn telji 130-140 fugla að hausti. Útbreiðslan er nú orðið mest bundin við Vesturland. Við Breiðafjörð hafa haldið til 25 af 38 arnarpörum á Íslandi.

Lambadráp úr sögunni?

Í skýrslu Kristins Skarphéðinssonar segir að lambadráp arna virðist að mestu vera úr sögunni. Vitnað er til rannsókna Agnars Ingólfssonar árið 1961 á meintu lambadrápi arna. Þær leiddu í ljós að ernir gátu aðeins hafa tekið lítinn hluta þeirra lamba sem þeim var kennt um að hafa drepið. "Langflestar fullyrðingar um að ernir hafi tekið lifandi lömb eru byggðar á veikum forsendum," segir í skýrslunni.

Í skýrslu Kristins er reynt að varpa ljósi á tjón á æðarvörpum af völdum arna og bendir höfundur á að í tveimur þriðju æðarvarpa hafi ernir annað hvort ekki valdið skaða eða bændur teldu sig ekki hafa ástæðu til að kvarta undan örnum. Þar sem bændur tilgreindu á hinn bóginn tjón var það oftast í því fólgið að ernir fældu kollur úr varpi og máfar og hrafnar eyðilögðu egg og dún í kjölfarið. Fjöldi hreiðra sem eyðilagðist á þennan hátt skipti sjaldan meira en nokkrum tugum.

"Á undanförnum 20 árum hefur örnum verið kennt um stórtjón í 3-4 æðarvörpum en þar hefur orðið meira en 15% rýrnun á dúntekju. Langmesta tjónið virðist hafa orðið á Miðhúsum í Reykhólasveit, mest árið 1983 (um helmingsrýrnun á dúntekju), en einnig talsvert árið 1991. Bændur þar töldu sig hafa tapað 516.000 krónum árið 1991 en dúntölur liggja ekki fyrir," segir í skýrslunni.

Hvað sem öðru líður virðist ljóst að stofnstærð æðarfuglsins stafar lítil hætta af erninum. Orkuþörf arna svarar til þess, að þeir þurfi að éta hálft kíló af kjöti á dag. Í skýrslu Kristins kemur fram að arnarstofninn sé áætlaður 130-140 fuglar að hausti og æðarstofninn um 970 þúsund fuglar, þar af eru um 680 þúsund á arnarsvæðunum vestanlands. Eru því um 7.200 fuglar á hvern örn á landinu öllu. "Gróflega áætlað éta 135 ernir um 6.400 æðarfugla á hverju ári eða um 0,65% af æðarstofninum," segir þar.

Hæstiréttur dæmdi bætur 1966

Hæstaréttardómur var kveðinn upp árið 1966 þar sem bónda í Hvallátrum á Breiðafirði voru dæmdar bætur úr ríkissjóði vegna tjóns sem örn olli í æðarvarpi hans. Drap örninn tugi æðarfugla við hreiður vorið 1957 og taldi bóndi að um 1.000 af 3.000- 3.500 hreiðrum hefðu spillst af völdum arnarins. Fór hann fram á að fá að drepa örninn. Fulltrúi í menntamálaráðuneytinu synjaði beiðninni en taldi jafnframt að tjónið yrði bætt.

Það var hins vegar ekki gert og höfðaði bóndinn þá mál. Var ríkissjóður sýknaður í héraðsdómi en níu árum eftir þessa atburði dæmdi Hæstiréttur bóndanum 15 þús. kr. bætur, sem voru um fimmtungur af upphaflegri kröfu hans. Skiptar skoðanir eru um fordæmisgildi þessa dóms vegna hugsanlegrar bótaskyldu ríkissjóðs en þetta er eina málið sem dæmt hefur verið í varðandi árekstra arna og æðarbænda, að því er fram kemur í skýrslu Kristins.

Kristinn lagði til í skýrslu sinni að ríkisvaldið og æðarbændur tækju upp viðræður um lausnir og komist verði að raun um hvernig bændur vilji að tjón verði metið. Hann er þeirrar skoðunar að ríkið verði að fallast á að ernir geti og hafi valdið tjóni í æðarvörpum sem kunni að vera réttlætanlegt að bæta. Hins vegar þurfi æðarbændur að samþykkja að ernir séu hluti af náttúru landsins en ekki aðeins óæskileg aðskotadýr í æðarvörpum.

Lagði hann m.a. til að kannaðir yrðu möguleikar á að koma á fót tryggingarsjóði til að bæta veruleg skakkaföll í æðarvarpi. Þó væri ljóst að margvísleg vandamál fylgdu bótagreiðslum. "Nær öll bótakerfi sem komið hefur verið á fót erlendis til að bæta tjón af völdum villtra dýra hafa verið misnotuð," segir í skýrslunni.

Í niðurlagi skýrslunnar segir Kristinn: "Ef ekkert verður aðhafst í málunum er líklegt að vandinn muni aukast og gætu bændur þá tekið málin í sínar hendur. Það mun hvorki verða arnarstofninum til framdráttar né ímynd æðarbænda meðal almennings, náttúruverndarsamtaka og erlendra dúnkaupenda. Ekki er mælt með því að leyfa arnardráp, eyðileggja arnarvarp í grennd við æðarvarp, né reyna að fækka örnum við Breiðafjörð með því að flytja þá í aðra landshluta."



Þriðjungur bænda sagðist hafa orðið fyrir tjóni

Arnarstofninn hefur staðið í stað undanfarin tíu ár