LÁRUS Halldórsson hefur verið ráðinn framleiðslustjóri innlendra auglýsinga hjá Saga film hf. Lárus var kynningarfulltrúi Stöðvar 2 árin 1990-1993. Frá 1993 til 1996 starfaði hann sem skipulagsstjóri hjá Safari ferðum og frá september 1996 það ár til ágústloka 1997 starfaði hann sem framkvæmdastjóri hjá Auglýsingagerð Gulla Magga ehf.
Fólk Breytingar hjá Saga Film
LÁRUS Halldórsson hefur verið ráðinn framleiðslustjóri innlendra auglýsinga hjá Saga film hf. Lárus var kynningarfulltrúi Stöðvar 2 árin 1990-1993. Frá 1993 til 1996 starfaði hann sem skipulagsstjóri hjá Safari ferðum og frá september 1996 það ár til ágústloka 1997 starfaði hann sem framkvæmdastjóri hjá Auglýsingagerð Gulla Magga ehf. Auk þess hefur Lárus séð um framleiðslu á ýmsu kynningarefni fyrir fyrirtæki og félagasamtök.
Sambýliskona Lárusar er Lára Kemp , snyrtifræðingur, og eiga þau eina dóttur, Antoníu 2ja ára. Auk þess á Lárus 7 ára dóttur, Ylfu.
NICHOLAS A. Cathcart-Jones hefur verið ráðinn hljóðmaður hjá Saga Film og jafnframt deildarstjóri hljóðdeildar fyrirtækisins. Nick hefur unnið við hljóðupptökur frá árinu 1979, þá í Bretlandi, m.a. hjá Mayfair Recording Studios, Gateway Recording Studios, R.G.M & Clock Studio. Árið 1986 hóf hann störf á Íslandi og hefur hann undanfarin ár unnið með landsþekktu tónlistarfólki og uppskorið 8 gullplötur og 1 platínudisk. Nick hefur auk þess að vinna við tónlistarupptökur, unnið með Saga Film að ýmsum verkefnum og kennt á námskeiði í hljóðupptöku hjá Nýja músíkskólanum. Sambýliskona Nicks er Jóna Gísladóttir, starfsmaður auglýsingadeildar Íslenska útvarpsfélagsins og eiga þau eina dóttur.
RÚNAR Hreinsson hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra auglýsingaframleiðslu Saga Film hf. Rúnar lærði kvikmyndagerð við The London International Film School í London og útskrifaðist þaðan 1986. Á árunum 1986-1988 starfaði hann hjá HIK, við framleiðslustjórn á auglýsingum og heimildarmyndagerð. Árið 1988 réðst hann til Saga Film og hefur starfað þar til dagsins í dag við leik- og framleiðslustjórn. Við skipulagsbreytingu innan fyrirtækisins í júní sl. tók hann síðan við framkvæmdastjórastarfi auglýsingaframleiðslu fyrirtækisins. Rúnar er kvæntur Ernu Gísladóttur og eiga þau 2 börn.
SIGFÚS Guðmundsson hefur tekið við starfi yfirmanns framleiðsludeildar Saga Film hf. Sigfús býr yfir langri reynslu í kvikmynda- og sjónvarpsgerð. Hann starfaði í hljóðdeild RÚV frá árinu 1966 til 1980. Þá stofnaði hann fyrirtækið KOT kvikmyndagerð, þar sem hann starfaði til ársins 1987 þegar hann réðst til Saga Film sem yfirmaður hljóðdeildar fyrirtækisins. Sigfús er kvæntur Auðbjörgu Ögmundsdóttur förðunarmeistara hjá Sjónvarpinu og eiga þau tvö börn.